Almenningur (hugverk)

Almenningur (e. Public Domain) er í hugverkarétti safn þeirra verka, uppfinninga eða vörumerkja sem einkaréttur gildir ekki lengur um þar sem tímalengd réttarins er liðin eða þau uppfylla ekki lengur skilyrði fyrir vernd í skilningi laganna. Oftast þýðir þetta einfaldlega að ekki gilda lengur nein skilyrði hugverkaréttar fyrir notkun verkanna, en þó tíðkast í löggjöf sumra landa að setja skilyrði um verk í almenningi og skapa þar með eins konar eilífan höfundarétt. Þetta er til dæmis gert með ákvæðum um ríkishöfundarétt, menningarvernd og eilífan sæmdarrétt. Í sumum löndum er til kerfi þar sem borga þarf fyrir hagnýtingu verka í almenningi; svokallað domaine public payant-kerfi. Eilífur hugverkaréttur getur líka verið búinn til með sérlögum eins og í íslenskum lögum um þjóðsönginn.

Mynd af merkinu fyrir höfundarrétt gegnumstrikað
Merki hugverksins almenningur.
Klippiverkið Sjöundi dagur í Paradís er í almenningi ásamt öðrum verkum Muggs þar sem hann lést fyrir meira en 70 árum (1924).

Í Bandaríkjunum gildir að verk unnin af starfsmönnum stofnanna alríkisstjórnarinnar eru sjálfkrafa í almenningi. Til dæmis gerist það að ef höfundaréttarvarinn texti verður hluti af lögum þá verður hann um leið hluti af almenningnum.

Algengt hefur verið að skilgreina almenninginn út frá höfundarétti, sem þau verk sem ekki njóta lengur höfundaréttarverndar. En almenningurinn telur í reynd líka verk sem aldrei hafa verið varin höfundarétti. Þetta á til dæmis við um alþýðumenningu (þjóðlög, þjóðkvæði, þjóðsögur o.s.frv.) Alþýðuleg hversdagsmenning (eins og brandarar, klámvísur, tækifærissögur, graff o.s.frv.) nýtur að jafnaði ekki heldur verndar höfundaréttar og tilheyrir því almenningi. Það er því líka hægt að skilgreina það safn hugverka sem nýtur verndar hugverkaréttar sem sértilvik innan menningar sem annars er í almenningi.

Tengt efni

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.