Spjall:Pizza

Latest comment: fyrir 4 mánuðum by Óskadddddd in topic Enn og aftur

pizza er ekki íslensk stafsetning á pítsu (z-an er ekki lengur notuð og pissa hefur aðra, síður lystaukandi merkingu), þ.a. ég legg til að það orð eða flatbaka verði notuð sem greinarheiti í staðinn! Thvj 27. mars 2008 kl. 13:48 (UTC)

Pítsa er líka ágætt orð. Vandamálið við flatbökuheitið er að það getur hugsanlega átt við fleira en pítsur. --Akigka 27. mars 2008 kl. 13:57 (UTC)
Já, flatbaka hljómar líka svolítið uppskúfað, svipað og vindlingur, viðtæki, bifreið, bifhjól o.s.frv. Ég er sáttur við pítsu ;) Thvj 27. mars 2008 kl. 14:00 (UTC)
Mér finnst flatbaka er besta val. --Girdi 27. mars 2008 kl. 17:35 (UTC)
Algengasta orðið er pizza/pítsa (í talmáli, óháð rithætti) en ekki flatbaka. Þannig að flatbaka ætti alls ekki að vera titill greinarinnar. Hins vegar er pizza með z mjög algengur ritháttur og það er ekkert að því að skrifa z í íslensku þótt það sé ekki lengur kennt í skólum. Z er bara samt til í íslensku. Hvað með þá 20 einstaklinga sem heita (skv. Þjóðskrá) Zophonías að eiginnafni? Heita þeir þá ekki íslensku nafni? Eða er „rétt“ íslensk stafsetning þá Sophonías? Hvað með þá Íslendinga sem heita Ebenezer, Franz, Fritz og Klemenz? Eru þetta þá stafsetningarvillur í Þjóðskrá? Jónína Bjartmarz hlýtur þá að heita Jónína Bjartmars á „íslensku“. Hvað með íslensk fyrirtækjaheiti eins og Pizza 67? Ég legg til að greininni verði haldið þar sem hún er. --Cessator 27. mars 2008 kl. 17:59 (UTC)
Sammála því. Finnst þó kaflinn Hin íslenska ritun á orðinu Pizza bera brag af frumrannsókn og mætti alveg endurskoða. Koma kannski frekar inn á einhverja orðsifjafræði... — Jóna Þórunn 27. mars 2008 kl. 18:16 (UTC)
Cessator, mér finnst varla ástæða til að nota orðið pizza sem greinarheiti (sem yrði pissa, ef menn nota ekki z-etuna) því ekki er um sérnafn að ræða eins og Bjartmarz. Réttara væri, ef stafsetja á skv. framburði að nota pítsa eða pitsa. - Orðið flatbaka er svosem ekki alslæmt, enda segistu sjálfur elska flatbökur á notendasíðunni þinni ;o) Thvj 27. mars 2008 kl. 19:01 (UTC)
Þegar maður leitar af orðinu "pizza" í ordabok.is, þá kemur í röðinni "pizza kv., pítsa kv., flatbaka kv.". Bara að láta ykkur að vita það. :) --Girdi 27. mars 2008 kl. 20:52 (UTC)
Gallinn er einmitt að zetan var til í íslensku og var þá borin fram sem langt s. Samkvæmt íslenskum framburði eru því orðin pissa og pizza alveg jafngild. Pítsa er hins vegar tilraun til að fanga ítalska framburðinn þar sem zetan er yfirleitt borin fram sem 'ts'. Mér finnst í sjálfu sér alveg jafnsmekklaust að skrifa pizza í íslenskum texta og pissa - þ.e.a.s. mér myndi aldrei detta það í hug. --Akigka 27. mars 2008 kl. 23:10 (UTC)
Síðan hvenær miðast íslensk stafsetning við framburð? Hún hefur aldrei gert það, hún miðast við uppruna og orðsifjar. Nú er ekki lengur kennt að rita z í skólum (í ákveðnum orðmyndum eins og miðmynd sagna, eftir því hvernig sagnmyndin er mynduð o.s.frv.) en það breytir ekki því að réttritun miðast við uppruna og ég sé ekki að það breyti neinu hér þótt pizza sé ekki sérnafn. Svo er líka enn þá leyfilegt að rita z í íslensku þótt það sé ekki sú stafsetning sem er kennd í skólum. Eruð þið að segja mér að þið teljið heiti staðarins Pizza 67 innihalda stafsetningarvillu? Rithátturinn „pizza“ er bara margfalt algengari hvort sem okkur líkar það betur eða verr og nánast allir pizzustaðir nota þennan rithátt (og google leit á íslenskum síðum skilar tæplega 50 þúsund niðurstöðum fyrir „pizza“ en tæplega 2 þúsund fyrir „pítsa“ sem ég myndi segja að væri marktækur munur). Það breytir engu hvað stendur á sniði sem ég hef á notandasíðunni minni. --Cessator 27. mars 2008 kl. 23:36 (UTC)
Þegar þú stendur frammi fyrir orði sem þú hefur ekki séð áður og veist ekki hvernig á að bera fram þá berðu það fram samkvæmt framburðarreglum þess máls sem er á textanum sem þú ert að lesa. Það er fullt af Íslendingum sem ber orðið fram /pissa/ eins og er lógískt eins og orðið er skrifað. Ef orðið er hins vegar orðið natúralíserað í íslensku, þá væri það í fyrsta lagi skrifað án zetu: pissa eða pitsa, og í öðru lagi með framburð í samræmi við það. Þegar erlend orð eru tekin upp óbreytt og gert ráð fyrir því að þau séu borin fram samkvæmt öðrum framburðarreglum en íslenskum, þá er góður siður að skáletra þau þegar þau koma fyrir í íslenskum texta og því legg ég til að þetta orð verði skáletrað alls staðar þar sem það kemur fyrir í greininni ef ætlunin er að skrifa það pizza svo fólk geti varað sig á framburðinum. --Akigka 28. mars 2008 kl. 09:50 (UTC)

Set þetta hérna til gamans: [1] og þetta [2]. --85.220.93.30 28. mars 2008 kl. 00:07 (UTC)

Svona er það þegar málið er sett í nefnd. Bæði „flatbaka“ og „majónssósa“ voru misheppnuð að því leyti að íslenskur almenningur hafði engan áhuga á að nota þessi orð. Og þó hafa Íslendingar engan veginn verið ragir við að taka upp íslensk nýyrði ef þau heppnast vel (t.d. „þyrla“). Fyndið að í annarri greininni þarna sé því haldið fram að þeir sem noti útlenskuna séu að sýna málræktinni vanvirðingu; árinni kennir illur ræðari. --Cessator 28. mars 2008 kl. 00:19 (UTC)
Ok, þér finnst orðið flatbaka misheppnað og ég er að nokkru sammála! En geturðu ekki fallist á að notað orðið pítsa, sem íslenskun á ítalska orðinu pizza? Hvernig á annars að réttlæta það fyrir t.d. skólabörnum að skrifa jafn algengt orð með bókstaf, sem því hefur verið sagt að sé ekki notaður í íslensku? - Ef þú vilt ekki nota majónsósu er allt í lagi að nota mæjónes ;o) Thvj 28. mars 2008 kl. 21:12 (UTC)
Nei, orðið „flatbaka“ er svo sem ekki misheppnað í sjálfu sér; það er ekkert að orðinu út af fyrir sig. En það er án nokkurs vafa misheppnuð nýyrðasmíð að því leyti að málnotendur fást ekki til að nota það. En hver er annars að segja börnum að z sé ekki til í íslensku? Sá hinn sami ætti frekar að hætta því. Við kennum ekki lengur réttritunarreglur um notkun z en það er ekki þar með sagt að stafurinn sé ekki til. Íslensk réttritun miðast við uppruna; til dæmis er viðtengingarháttur nútíðar af sögninni að finna „finni“ en viðtengingarháttur þátíðar „fyndi“ og y stafar af því að uppruni orðmyndarinnar er í þriðju kennimynd sagnarinnar (fundum). Sams konar reglur voru til um ritun z, t.d. í orðinu „íslenzkur“ en við erum hætt að kenna þær flóknu reglur. Aftur á móti er z í orðinu „pizza“ ekki til komin þannig heldur er hún í sjálfum orðstofninum. Og ég sé barasta enga ástæðu til að fjarlægja hana úr honum. Alveg eins og z er enn í íslenskum nöfnum og það er engin ástæða til að hreinsa þau nöfn af z. --Cessator 28. mars 2008 kl. 22:31 (UTC)
Vandamálið er að pizza/pissa er ekki íslenska orðið sem notað er yfir flatböku heldur ítalskt orð, þ.a. point er að best sé að nota íslenskt orð sem heiti greinarinnar. Þá er um að velja pítsa, pitsa eða flatbaka! Það er bara spurning um val. Þurfum við nokkuð að þræta mikið um þetta? Við vorum sammála um að nota frisbí og svifdisk í staðinn fyrir enska orðið frisbee, eller hur? Thvj 28. mars 2008 kl. 23:25 (UTC)
Við eigum að nota íslenska orðið en ég er ekki viss um að ég sé sammála þér um að pizza geti ekki verið íslenskt orð. Um það snýst deilan. Pizza (óháð rithætti) er tökuorð í íslensku og er ekki síður íslenskt orð en flatbaka rétt eins og bíll er ekki síður íslenskt orð en bifreið. Spurningin er þá hvers vegna tökuorð með z í upprunalega orðstofninum megi ekki halda henni eftir að það verður tökuorð. Samanburðurinn við frisbí finnst mér hafa takmarkað gildi af því að notkun orðsins „frisbee“ stenst ekki samanburð við notkun „pizza“ í íslensku máli. Þú verður að játa það að minnsta kosti að útbreiðsla og notkun ritháttarins „pizza“ er allt önnur en „frisbee“. Og það eru ekki bara veitingastaðirnsir (nánast allir) sem selja pizzur (en ekki pítsur) heldur er orðið skrifað svona víða annars staðar. Vísindavefurinn notar báða rithætti (sjá t.d. hér). --Cessator 29. mars 2008 kl. 02:09 (UTC)
Kaflinn um orðsifjafræðina er tekinn orðrétt af vefnum rettritun.is og þarf því að eyða! Ég sætti mig treglega við greinarheitið pizza, sem skv. veftalningu réttritunarvefsins er kórrétt íslensk stafsetning! Ég tel þó að ekki að rök mín fyrir að nota frekar orðið pítsa hafi verið hrakin, en mun ekki mælast fyrir breytingu á greinarheiti að svo stöddu. Thvj 29. mars 2008 kl. 23:40 (UTC)
Ég get ekki séð að kaflinn sem þú eyddir hafi verið tekinn orðréttur af réttritunarvefnum. Hins vegar voru upplýsingarnar þaðan en það var líka vísað í vefinn sem heimild. Er ekki allt í lagi að halda kaflanum? --Cessator 29. mars 2008 kl. 23:55 (UTC)
Hann var a.m.k. álíka orðréttur og endursögn Hannesar Hólmstein úr Laxness, þ.a. til að forðast höfundarréttarbrot þorði ég ekki öðru en að setja stórar og feitar gæsalappir ;) - Skrítin rök annars hjá rettritun.is, að ef sama vitleysan kemur nógu oft fram á Netinu þá verði hún að sannleika :o Thvj 30. mars 2008 kl. 12:29 (UTC)
Ég sé ekki að þetta sé álíka orðrétt og hjá HHG. Auk þess eigum við ekki að setja texta í gæsalappir nema textinn sé nákvæmlega eins, því það er það sem gæsalappirnar segja, að tilvitnunin sé 100% orðrétt. --Cessator 30. mars 2008 kl. 13:45 (UTC)
Heyrðu Cessator, mér þykir þú í frekara lagi!! Tekur til baka breytigarnar sem ég gerði og hunsar þannig útskýringar mínar hér að ofan :o Vorum við ekki að reyna að ræða málin í bróðerni til þess að komast að skynsamlegri niðurstöðu? Ég las greinina á rettritun.is og skv. mínu, ekki alls kostar óbrigðula minni, er klausan a.m.k. 90% afritun af vefnum! Hvað er málið eiginlega með þig, þarftu alltaf að eiga síðasta orðið? Thvj 30. mars 2008 kl. 14:04 (UTC)
Svona lítur textinn á réttritun út:
"Tökuorðið pizza er samkvæmt Íslensku orðabókinni ritað pitsa (eða pítsa) á íslensku en þar sem rithátturinn pizza er notaður u.þ.b. 30 sinnum1 í íslenskum texta fyrir hvert skipti sem ritað er pitsa (eða pítsa) er varla verjandi að halda því fram að rangt sé að rita pizza með zz. Regla sem það segði væri einfaldlega svo langt frá því að lýsa íslensku nútímaritmáli að gagnsemi hennar væri lítil. Vissulega má stundum segja að stór hluti Íslendinga geri sömu stafsetningarvilluna en rúmlega 96% er of yfirgnæfandi meirihluti til að hægt sé að halda því fram hvað þetta varðar. Réttritun.is viðurkennir því að ritað sé pizza með zz en valfrjálst er að nota hinn kostinn, pitsa kjósi maður það heldur. Telji einhver að hér sé verið að eyða púðri í sjaldgæft orð má nefna að orðið pizza er um þrefalt algengara á íslenskum vefsíðum en orðið stóll."
og svona lítur textinn í greininni út:
"Mikið vandamál kom upp upprunalega þegar orðið pizza var tekið í íslenska tungu, þar sem stafur z er oftast ekki notaður í íslensku nema í sérnöfnum af erlendum uppruna. Upphaflega var orðið pizza íslenskað annaðhvort sem pítsa eða pitsa (og er það íslenska orðið yfir pizzu samkvæmt Íslensku Orðabókinni[1]), en samkvæmt athugun á íslenskum vefsíðum þann 17. janúar árið 2006 er orðið pizza notað um 30 sinnum oftar á íslenskum vefsíðum en orðin pítsa eða pitsa[1], og því má segja að ekki sé rangt að rita pizza.[1]"
Fyrsti hlutinn ("Mikið vandamál kom upp upprunalega þegar orðið pizza var tekið í íslenska tungu, þar sem stafur z er oftast ekki notaður í íslensku nema í sérnöfnum af erlendum uppruna.") er alls ekki tekinn af rettritun.is. Næst segir "Upphaflega var orðið pizza íslenskað annaðhvort sem pítsa eða pitsa" og þá fullyrðingu er ekki heldur að finna á réttritunarvefnum hvorki orðrétt né efnislega. Þá segir í sviga "og er það íslenska orðið yfir pizzu samkvæmt Íslensku Orðabókinni[1]" og vísað í réttritunarvefinn sem heimild. Til samanburðar segir þar "Tökuorðið pizza er samkvæmt Íslensku orðabókinni ritað pitsa (eða pítsa) á íslensku" — það er nákvæmlega ekkert athugavert við þetta. Þá segir næst í greininni hér "en samkvæmt athugun á íslenskum vefsíðum þann 17. janúar árið 2006 er orðið pizza notað um 30 sinnum oftar á íslenskum vefsíðum en orðin pítsa eða pitsa[1]" og aftur er vísað í réttritunarvefinn sem heimild þar sem segir til samanburðar "en þar sem rithátturinn pizza er notaður u.þ.b. 30 sinnum1 í íslenskum texta fyrir hvert skipti sem ritað er pitsa (eða pítsa)" og einungis hér kemst orðalag nógu nærri til að valda einhverjum óþægindum; það er þó ljóst að textinn er ekki tekinn orðréttur og það er vísað í réttritunarvefinn sem heimild fyrir efnislegu inntaki. Að lokum lýkur efnisgreininni hér með orðunum "og því má segja að ekki sé rangt að rita pizza.[1]" og enn er vísað í heimildina, þar sem segir "er varla verjandi að halda því fram að rangt sé að rita pizza með zz." Aftur er textinn ekki orðréttur en efnislegt inntak endursagnarinnar er stutt með tilvísun í heimildina (sem HHG notabene gerði ekki). En ef einhverjum þykir þetta of nálægt frumtextanum, þá er nær að umorða seinustu málsgreinina frekar en að setja alla efnisgreinina í gæsalappir sem er afar villandi, því þennan texta er ekki að finna orðréttan og að sumu leyti ekki einu sinni efnislega á réttritun.is. --Cessator 30. mars 2008 kl. 14:05 (UTC)
Breytingaárextur, sá ekki síðasta innlegg fyrr en nú: Taktu þessu ekki illa, mér gengur gott eitt til. En þú getur bara ekki sett allan textann í gæsalappir eins og ekkert sé. Hann er ekki einu sinni að finna allan efnislega á réttritunarvefnum! --Cessator 30. mars 2008 kl. 14:06 (UTC)
Ok, en ég gerði einnig þá breytingu að setja pizza eða pítsa í innganginum, þ.e. stafsetningin er jafrétthá, sem hvarf líka þegar þú tókst allt till baka með einum músarsmelli :( Ok, þetta er ekki 100% orðrétt endursögn, þó vísað sé í sömu vefmælingu 2006, en mér finnst klausan svo mikið endemis bull að réttast væri að hafa hana orðrétta innan gæsalappa og vitna til upprunans ;o) Thvj 30. mars 2008 kl. 14:15 (UTC)
Fyrirgefðu, ég tók ekki eftir breytingunni á innganginum. Ég skal laga það. --Cessator 30. mars 2008 kl. 15:48 (UTC)

Lygi, haugalygi og tölfræði

Það væri gaman að vita hvernig menn komast að því að orðið 'pizza' sé notað 30 sinnum oftar en 'pítsa'/'pitsa'. Mér virðist nefnilega (við stuttlega athugun) að algengasti rithátturinn sé einmitt 'pitsa' (með i) 218.000 og þar á eftir komi 'pizza' 207.000 og í síðasta sæti pítsa með 13.000. Þannig að rithættirnir pitsa og pizza virðast vera jafnalgengir. --Akigka 18. febrúar 2009 kl. 09:23 (UTC)

Enn og aftur

Afsakið að ég skuli vekja upp gamlan draug. Ég legg til að greinin verði færð á Pitsa og hefjist svona: Pitsa (út ítölsku: pizza), stundum flatbaka, er ... o.s.frv. --Akigka (spjall) 4. maí 2017 kl. 09:30 (UTC)

Hví ekki pítsa? Maxí (spjall) 4. maí 2017 kl. 09:56 (UTC)
Af því að stafsetningarorðabókin segir pitsa, og það virðist líka vera mun algengari ritháttur. --Akigka (spjall) 4. maí 2017 kl. 09:57 (UTC)
Má færa þessa síðu? Rétti ritháttur sbr. https://stafsetning.arnastofnun.is/fletta/104525 er pitsa. En svo getum við líka fært síðuna yfir á Flatbaka til að koma í veg fyrir þras varðandi ritháttinn. Ef síðan er færð má einnig nefna fleiri rithætti, svo sem pizza og pítsa. Óskadddddd (spjall) 8. febrúar 2024 kl. 18:32 (UTC)
Styð þennan flutning á pitsa en það má koma fram í innganginum að rithátturinn pítsa sé líka til. Maxí (spjall).
Fara aftur á síðuna „Pizza“.