Anna Agnarsdóttir

Anna Agnarsdóttir (f. 14. maí 1947) er fyrrum prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Ferill

Hún hóf störf sem stundakennari við Háskólann upp úr 1980, var skipuð dósent í sagnfræði árið 1990 og árið 2004 varð hún fyrst kvenna til að gegna stöðu prófessors í þeirri grein.[1] Hún lét af störfum sökum aldurs 1. júní 2017.[2]

Anna lauk BA (Hons.) prófi í sagnfræði frá University of Sussex árið 1970 og prófi í Íslandssögu við Háskóla Íslands 1972. Hún varði doktorsritgerð (PhD) í alþjóðasagnfræði frá London School of Economics and Political Science árið 1989 sem bar heitið “Great Britain and Iceland 1800-1820.”[3] Fjallaði ritgerðin um samskipti Íslands og Bretlands á tímabilinu 1800-1820, með áherslu á stjórnmála- og verslunarsögu.[1]

Rannsóknir

Meginrannsóknarsvið Önnu eru á sviði utanríkissögu, samskipti Íslands við umheiminn, einkum Bretland, og sögu Íslands á tímabilinu 1750-1830, m.a. rannsóknarleiðangra erlendra manna til landsins og verslun.[4] Markmið rannsókna hennar hefur m.a. verið að varpa ljósi á að Ísland var aðeins einangrað land á þessum tíma í landfræðilegum skilningi. Til Íslands bárust almennt straumar frá Evrópu og Íslandssagan tengist Evrópusögunni.[5] Um þessar mundir rannsakar hún samskipti Frakka og Íslands á 18. öld, þegar áhugi vaknaði hjá Frökkum að skipta á Íslandi og Louisiana.

Viðamesta rannsóknarrit hennar er Sir Joseph Banks, Iceland and the North Atlantic. Journals, Letters and Documents 1772-1820 (Routledge, 2016). Hún skrifaði um tímbilið 1800 til 1830 í Sögu Íslands (IX. bindi) og er meðal höfunda ritsins Líftaug landsins) (2017 sem fjallar um sögu utanlandsverslunar Íslands 900-2010. Bókin hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis.[6] Meðal nýlegra verka er kafli um Ísland í öðru bindi Cambridge History of Scandinavia (2016).

Anna hefur skrifað fjölda greina og bókarkafla í innlendum og erlendum fræðiritum, um hundadagadrottninguna og heimildaútgáfur, frönsku og íslensku stjórnarbyltingarnar og tengsl Grænlands og Íslands svo að dæmi séu nefnd.[7] Hún hefur flutt marga fyrirlestra bæði hérlendis og erlendis, m.a. nokkrum sinnum í boði The Royal Society, London.

Ýmis störf og verkefni

Anna hefur ritstýrt tímaritunum Sögu Geymt 22 júní 2019 í Wayback Machine og Nýrri sögu og allmörgum bókum ásamt öðrum. Má þar nefna Kvennaslóðir[óvirkur tengill], en í þá bók rituðu allir starfandi kvensagnfræðingar árið 2000, og Ferðadagbækur Magnúsar Stephensen 1807-1808 ásamt Þóri Stephensen (Reykjavík, 2010).

Hún hefur gegnt ýmsum félagsstörfum í fræðasamfélagi sagnfræðinga bæði innan og utan háskólans. Hún var forseti Heimspekideildar á árunum 2002-2004,[1] fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráði 2008-2012, forseti Sögufélags 2005-2011, fyrst kvenna,[8] og er nú formaður stjórnarnefndar Þjóðskjalasafns Íslands.[9] Ennfremur situr hún í stjórn The Banks Archive Project og er fulltrúi Íslands í The Hakluyt Society og the Scandinavia-Japan Sasakawa Foundation.[10]

Anna er nú einn margra ritstjóra í alþjóðlega verkefninu The Hakluyt Edition Project Geymt 6 ágúst 2019 í Wayback Machine. Hér er um að ræða fræðilega útgáfu af frumheimildasafni Richards Hakluyt The Principal Navigations … of the English Nation (1598), sem Oxford University Press mun gefa út á næstu árum.

Viðurkenningar

Anna er heiðursfélagi Sögufélags[11] og kjörinn meðlimur í Det Kongelige Danske Selskab for Fædrelandets Historie[12] og Vísindafélagi Íslendinga (Societas scientiarum Islandica). Árið 2017 var hún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til sagnfræðirannsókna.[13]

Æska og einkalíf

Anna er fædd í Reykjavík. Foreldrar Önnu voru Ólöf Bjarnadóttir (1919-1999) og Agnar Kl. Jónsson (1909-1984) sendiherra og ráðuneytisstjóri. Hún var alin upp í London og París 1951-1961 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1967.[14] Anna er gift Ragnari Árnasyni prófessor emeritus í hagfræði. Þau eiga tvær dætur og Anna eina stjúpdóttur.

Heimildir