Forsetakosningar á Íslandi 2016

Forsetakosningar á Íslandi 2016 fóru fram laugardaginn 25. júní og tók sigurvegari kosninganna við embætti þann 1. ágúst.[1] Fráfarandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, sem hafði setið fimm kjörtímabil sem forseti Íslands gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Því var ljóst að í fyrsta sinn í tuttugu ár myndi nýr forseti taka við.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla í Perlunni með stimplum fyrir hvern forsetaframbjóðanda.

Alls voru níu frambjóðendur í framboði, fimm karlmenn og fjórar konur. Þrettán aðrir höfðu áður lýst yfir framboði en drógu síðan, hvert af öðru, framboð sín tilbaka af ólíkum ástæðum. Í síðustu forsetakosningunum árið 2012 voru sex forsetaframbjóðendur og höfðu aldrei verið fleiri.

Guðni Th. Jóhannesson hlaut flest atkvæði í kosningunum og tók við embætti forseta Íslands þann 1. ágúst 2016.

Frambjóðendur

Þáverandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, tilkynnti í nýársávarpi sínu 1. janúar 2016 að hann yrði ekki í framboði í kosningunum og stefndi því í fimmtu forsetakosningarnar frá lýðveldisstofnun þar sem sitjandi forseti yrði ekki í framboði.[2]

Í kjölfarið fjölluðu fjölmiðlar um það hvaða hugsanlegu frambjóðendur gætu komið fram og voru mörg talin upp.[3] Jón Gnarr var orðaður við forsetaframboð, hins vegar gaf hann það út 15. janúar 2016 að hann hyggðist ekki gefa kost á sér.[4] Katrín Jakobsdóttir íhugaði framboð en hún hafði hlotið stuðning í könnunum.[5] Hún ákvað að bjóða sig ekki fram.

Í byrjun janúar tilkynnti Árni Björn Guðjóns­son, fyrr­ver­andi odd­viti Kristi­lega lýðræðis­flokks­ins, um framboð en hann dró það til baka sólarhring seinna.[6][7] Á þessum tímapunkti höfðu sex manns tilkynnt um framboð sitt, þau Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Elísabet Jökulsdóttir, Hildur Þórðardóttir, Sturla Jónsson[3][8] og Þorgrímur Þráinsson.[9]

Í mars 2016 tilkynntu sex nýir frambjóðendur um framboð sín, það voru: Bæring Ólafsson, fyrrum framkvæmdastjóri Coca Cola samsteypunnar[10], Halla Tómasdóttir, fjárfestir[11], Heimir Örn Hólmarsson, rafmagnstæknifræðingur[12], Vig­fús Bjarni Al­berts­son, sjúkra­húsprest­ur[13], Hrannar Pétursson[14], og Guðmundur Franklín Jónsson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi formaður Hægri grænna[15], framboð sitt.

Í byrjun apríl hætti Þorgrímur Þráinsson við framboð.[16] Þá tilkynntu Benedikt Kristján Mewes, mjólkurfræðingur[17], Andri Snær Magnason, rithöfundur[18] og Magnús Ingi Magnússon, veitingamaður[19], um framboð sín um miðjan apríl.

Þann 18. apríl 2016 tilkynnti Ólafur Ragnar hins vegar á blaðamannafundi á Bessastöðum að hann hefði skipt um skoðun og yrði í framboði í sjötta skiptið. Vísaði hann sérstaklega til óvissuástands í íslenskum stjórnmálum í kjölfar afsagnar forsætisráðherra.[20] Í kjölfar þeirrar ákvörðunar drógu Vigfús Bjarni og Heimir Örn sín framboð til baka, dagana 19. og 20 apríl. [21][22]. Bæring Ólafsson dró framboð sitt til baka 25. apríl[23] og Hrannar Pétursson tveimur dögum síðar.[24]

Ólafur Ragnar kom fram í viðtali við CNN sjónvarpsstöðina í lok apríl þar sem hann svaraði afdráttarlaust „Nei, nei, nei, nei, nei. Það verður ekki raunin,“ þegar hann var spurður hvort hann eða Dorrit ættu einhverja aflandsreikninga eða hvort eitthvað ætti eftir að finnast í Panama-skjölunum um hann eða hans fjölskyldu. Greint var frá því í fréttamiðlum að fyrirtæki fjölskyldu Dorritar í Bretlandi, Moussaieff Jewellers, hefði tengst Tortóla-félaginu Lasca Finance.[25]

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna forsetakosninganna hófst 30. apríl, 8 vikum fyrir kjördag, en þá var framboðsfrestur ekki liðinn.

Þróun í maí

Baldur Ágústsson ákvað að bjóða sig sig fram 2. maí en hann bauð sig fram árið 2004. Sama dag greindi Guðrún Nordal frá því að hún gæfi ekki kost á sér. [26]

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, boðaði til fundar þann 5. maí þar sem hann lýsti því yfir að hann byði sig fram. [27]

Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni 8. maí lýsti Davíð Oddsson, ritstjóri og fyrrverandi forsætisráðherra, því yfir að hann hyggðist gefa kost á sér.[28]

Þann 9. maí skipti Ólafur Ragnar á ný um skoðun og hætti við framboð sitt. Gaf hann þá skýringu að „þjóðin [ætti] nú kost á að velja frambjóðendur sem hafa umfangsmikla þekkingu á eðli, sögu og verkefnum forsetaembættisins”.[29][30] Í viðtali við Eyjuna á Stöð 2 sagði hann forsendur fyrir forsetaframboði sínu hafa breyst í ljósi þess að fram væru komnir tveir, sterkir frambjóðendur. [31] Guðni Th. hafði þá mælst með tæp 60% fylgi í könnun sem birt var sama dag en Ólafur með rúm 25%. [32].

Þann 10. maí lýsti Magnús Ingberg Jónsson yfir framboði [33] Magnús Ingi Magnússon hætti við framboð sitt þann 17. maí. [34]

Tíu frambjóðendur skiluðu inn gögnum til innanríkisráðuneytisins áður en frestur rann út á miðnætti 21. maí: Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir, Sturla Jónsson og Guðrún Margrét Pálsdóttir. Magnús Ingberg Jónsson náði ekki að skila tilætluðum fjölda undirskrifta. Baldur Ágústsson dró framboð sitt til baka. [35]

Þróun í júní

Á RÚV voru forsetaumræður með öllum frambjóðendunum þann 3 júní.[36]Guðni Th. Jóhannesson mældist með mest fylgi í könnunum; í kringum 60% [37]

Listi yfir frambjóðendur

NafnKynTilkynnt um framboðHætt við framboðMeðmælendalistum skilað
Ari JósepssonKarlkynsNei
Andri Snær MagnasonKarlkyns11. apríl
Árni Björn Guðjóns­sonKarlkyns3. janúar4. janúar
Ástþór MagnússonKarlkyns
Baldur ÁgústssonKarlkyns2. maíNei
Benedikt Kristján MewesKarlkyns10. aprílNei
Bæring ÓlafssonKarlkyns18. mars24. apríl
Davíð OddssonKarlkyns8. maí
Elísabet JökulsdóttirKvenkyns
Guðmundur Franklín JónssonKarlkyns20. marsNei
Guðni Th. JóhannessonKarlkyns5. maí
Guðrún Margrét PálsdóttirKvenkyns
Halla TómasdóttirKvenkyns17. mars
Heimir Örn HólmarssonKarlkyns4. mars20. apríl
Hildur ÞórðardóttirKvenkyns3. janúar
Hrannar PéturssonKarlkyns20. mars27. apríl
Magnús Ingi Magnús­sonKarlkyns18. apríl17. maí
Magnús Ingberg JónssonKarlkyns10. maíNei
Ólafur Ragnar GrímssonKarlkyns18. apríl9. maí
Sturla JónssonKarlkyns11. apríl
Vigfús Bjarni AlbertssonKarlkyns6. mars18. aprílNei
Þorgrímur ÞráinssonKarlkyns9. apríl

Fyrirkomulag kosninga

Gagnrýnt hefur verið að utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefjist áður en liggi fyrir hverjir verða endanlega í framboði. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu gerði athugasemdir við hve snemma utankjörfundaatkvæðagreiðsla hófst. Stendur til að breyta lögunum með haustinu. [38]


Niðurstöður

×Andri Snær MagnasonÁstþór MagnússonDavíð OddssonElísabet Kristín JökulsdóttirGuðni Th. JóhannessonGuðrún Margrét PálsdóttirHalla TómasdóttirHildur ÞórðardóttirSturla JónssonÓtalin / ógild atkvæði
Suðurkjördæmi7,3%0,4%16,7%0,6%35,2%0,3%34,2%0,2%5,1%
Suðvesturkjördæmi12,9%0,3%13,9%0,5%39,9%0,2%28,9%0,2%3,3%
Norðausturkjördæmi8,9%0,3%11,2%0,4%45,1%0,2%31,1%0,1%2,5%
Reykjavíkurkjördæmi norður23,8%0,3%12,9%1,2%36,0%0,3%22,0%0,2%3,4%
Norðvesturkjördæmi7,2%0,5%14,1%0,5%42,1%0,3%32,0%0,2%3,2%
Reykjavíkurkjördæmi suður19,1%0,3%13,6%0,9%38,5%0,3%23,5%0,2%3,7%
Samtals
Niðurstöður14,3%0,3%13,7%0,7%39,1%0,3%27,9%0,2%3,5%

Kjörsókn var 75,7 prósent. [39]


Fyrir:
Forsetakosningar 2012
ForsetakosningarEftir:
Forsetakosningar 2020

Tilvísanir

Tenglar