Ariel Henry

Haítískur stjórnmálamaður

Ariel Henry (f. 6. nóvember 1949) er haítískur stjórnmálamaður. Hann er fyrrverandi forsætisráðherra og starfandi forseti Haítí.

Ariel Henry
Ariel Henry árið 2023.
Forseti Haítí
(starfandi)
Í embætti
20. júlí 2021 – 24. apríl 2024
ForsætisráðherraHann sjálfur
ForveriClaude Joseph (starfandi)
EftirmaðurMichel Patrick Boisvert (starfandi)
Forsætisráðherra Haítí
Í embætti
20. júlí 2021 – 24. apríl 2024
ForsetiHann sjálfur
ForveriClaude Joseph (starfandi)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur6. nóvember 1949 (1949-11-06) (74 ára)
ÞjóðerniHaítískur
StjórnmálaflokkurInite
MakiAnnie Claude Massiau
HáskóliHáskólinn í Montpellier
Loma Linda-háskóli
Boston-háskóli

Æviágrip

Ariel Henry nam læknisfræði og taugalífeðlisfræði við læknisfræðideild Háskólans í Montpellier. Hann varð síðar háskólaprófessor.[1]

Eftir valdaránið gegn forsetanum Jean-Bertrand Aristide árið 2004 var Henry meðlimur í nefnd sem var falið að útnefna nýjan ríkisstjórnarleiðtoga.[2]

Henry vann um skeið í heilbrigðisráðuneyti Haítí og varð síðan sjálfur heilbrigðisráðherra. Hann varð innanríkisráðherra í september 2015 og síðan félags- og vinnumálaráðherra frá september 2015 fram í mars 2016 á forsetatíð Michels Martelly.

Eftir afsögn Josephs Jouthe forsætisráðherra var Henry útnefndur forsætisráðherra Haítí þann 5. júlí 2021.[3][4] Var þá áætlað að Henry myndi taka við embætti þann 7. júlí.[5]

Þann 7. júlí 2021 var Jovenel Moïse forseti myrtur.[6][7] Eftir dauða Moïse tók við óvissa um það hver væri lögmætur stjórnandi Haítí. Henry hafði verið útnefndur forsætisráðherra en hafði enn ekki tekið við embættinu. Starfandi og fráfarandi forsætisráðherrann Claude Joseph tók fyrst við forsetaembættinu og deildi við Henry um embættið.[8]

Daginn eftir morðið á Moïse gerði Henry tilkall til þess að vera forsætisráðherra og starfandi forseti Haítí.[9] Þann 9. júlí lýsti haítíska þingið þingforsetann Joseph Lambert starfandi forseta Haítí.[10] Sú yfirlýsing naut stuðnings nokkurra þingflokka, meðal annars PTHK-flokks Moïse. Ariel Henry var engu að síður staðfestur sem forsætisráðherra stuttu síðar.[11] Að endingu var hætt við embættistöku Lamberts, sem hafði verið áætluð þann 10. júlí,[12] vegna þrýstings frá Bandaríkjunum.[13] Henry hafði stuðning Core Group, sem telur til sín Þýskaland, Brasilíu, Kanada, Spán, Bandaríkin, Frakkland, Evrópusambandið og fulltrúa Samtaka Ameríkuríkja og Sameinuðu þjóðanna.[2]

Henry myndaði ríkisstjórn sína þann 19. júlí.[14] Hann tók við embætti næsta dag.[15]

Þann 14. ágúst 2021 skall 7,2 stiga jarðskjálfti á Haítí og olli að minnsta kosti 2.000 dauðsföllum. Henry lýsti yfir mánaðarlöngu neyðarástandi vegna hamfaranna.[16]

Henry hefur verið vændur um að hafa átt hlut að máli í morðinu á Jovenel Moïse. Grunsemdirnar eru reistar á tengslum Henry við Joseph Félix Badio, sem er talinn hafa skipulagt morðið. Meðal annars sýna rakningar að Henry hringdi tvisvar í Badio, sem var staddur nærri forsetabústaðnum, kvöldið sem morðið á Moïse var framið.[17] Starfsmenn saksóknara fóru fram á að Henry yrði ákærður vegna málsins en Henry lét reka saksóknarann og sagði ásakanirnar vera hávaða skapaðan í pólítískum tilgangi.[18]

Stjórn Henry lýstu aftur yfir neyðarástandi og útgöngubanni í mars árið 2024 í kjölfar óeirða þar sem glæpagengi brutust inn í tvö fangelsi og frelsuðu þúsundir fanga. Þegar þetta gerðist var Henry erlendis í þeim erindagjörðum að fá Sameinuðu þjóðirnar til að senda friðargæslulið til Haítí til að koma á lögum og reglu.[19] Jimmy „Barbecue“ Chérizier, leiðtogi glæpagengisins, lýsti yfir ábyrgð á óeirðunum og lagði fram kröfu um að Henry segði af sér, ella myndi borgarastyrjöld brjótast út í landinu.[20]

Henry féllst á að segja af sér sem forsætisráðherra þann 12. mars 2024 eftir neyðarfund með aðildarríkjum CARICOM.[21]

Tilvísanir


Fyrirrennari:
Claude Joseph
(starfandi)
Forsætisráðherra Haítí
(20. júlí 202124. apríl 2024)
Eftirmaður:
Michel Patrick Boisvert
(starfandi)
Fyrirrennari:
Claude Joseph
(starfandi)
Forseti Haítí
(starfandi)
(20. júlí 202124. apríl 2024)
Eftirmaður:
Michel Patrick Boisvert
(starfandi)