Giuseppe Conte

58. forsætisráðherra Ítalíu

Giuseppe Conte (f. 8. ágúst 1964) er ítalskur lögfræðingur og stjórnmálamaður sem er 58. og fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu. Hann tók við embætti þann 1. júní 2018.[1]

Giuseppe Conte
Forsætisráðherra Ítalíu
Í embætti
1. júní 2018 – 13. febrúar 2021
ForsetiSergio Mattarella
ForveriPaolo Gentiloni
EftirmaðurMario Draghi
Persónulegar upplýsingar
Fæddur8. ágúst 1964 (1964-08-08) (59 ára)
Volturara Appula, Ítalíu
ÞjóðerniÍtalskur
StjórnmálaflokkurÓflokksbundinn (2018-2021)
Fimmstjörnuhreyfingin (2021–)
MakiValentina Fico (skilin); Olivia Paladino
Börn1
HáskóliSapienza-háskólinn
StarfLögfræðiprófessor, stjórnmálamaður
Undirskrift

Conte starfaði sem prófessor í einkarétti áður en hann hóf þátttöku í stjórnmálum. Hann var lítið þekktur þar til 21. maí 2018 en þá var stungið upp á honum sem forsætisráðherraefni samsteypustjórnar Fimmstjörnuhreyfingarinnar og Norðursambandsins.[2] Í fyrstu neitaði Sergio Mattarella forseti Ítalíu að staðfesta þessa ríkisstjórn þar sem hann kunni ekki við val þeirra á evruandstæðingnum Paolo Savona sem fjármálaráðherra[3] Þann 31. maí var leyst úr ágreiningnum og Giovanni Tria var gerður að fjármálaráðherra. Conte sór embættiseið sem forsætisráðherra næsta dag.[4]

Ýmsir fjölmiðlar líta á ríkisstjórn Conte sem fyrstu popúlísku ríkisstjórn í Vestur-Evrópu.[5][6][7] Conte er annar maðurinn sem hefur gerst forsætisráðherra Ítalíu án fyrri reynslu í ríkisstjórnarstörfum á eftir Silvio Berlusconi. Hann er jafnframt fyrsti forsætisráðherrann frá Suður-Ítalíu síðan Ciriaco De Mita var ráðherra árið 1989.[8][9]

Þar sem Conte er ekki hátt settur í stjórnmálaflokkunum sem mynduðu ríkisstjórn hans voru persónuleg völd hans sem forsætisráðherra í fyrstu ríkisstjórn hans nokkuð takmörkuð. Formenn Fimmstjörnuhreyfingarinnar og Norðursambandsins, Luigi Di Maio og Matteo Salvini, voru hver um sig ráðherra fjárhagsþróunar og innanríkisráðherra í ríkisstjórninni. Auk þess voru Di Maio og Salvini báðir varaforsætisráðherrar.

Þann 20. ágúst árið 2019 lýsti Conte því yfir að hann hygðist segja af sér sem forsætisráðherra.[10] Afsögn Conte kom í kjölfar þess að Salvini dró Norðursambandið úr ríkisstjórnarsamstarfinu með Fimmstjörnuhreyfingunni. Conte sakaði Salvini um að skapa stjórnarkreppu í eigin þágu til þess að reyna að auka fylgi flokks síns í nýjum kosningum.[11] Í stað þess að boða til nýrra kosninga ákváðu meðlimir Fimmstjörnuhreyfingarinnar hins vegar að mynda nýja ríkisstjórn í samstarfi við ítalska Lýðræðisflokkinn og settu það skilyrði að Conte, sem nýtur mikilla vinsælda meðal meðlima hreyfingarinnar, sæti áfram sem forsætisráðherra.[12][13]

Conte sagði aftur af sér þann 25. janúar árið 2021. Italia Viva, klofningsflokkur fyrrum forsætisráðherrans Matteo Renzi úr Lýðræðisflokknum, hafði dregið stuðning sinn við stjórn Conte til baka. Conte hafði náð áframhaldandi meirihluta á neðri deild ítalska þingsins en ekki á öldungadeildinni.[14] Eftir afsögn Conte var Mario Draghi, fyrrum seðlabankastjóra Evrópu, boðið að mynda þjóðstjórn til að ljúka kjörtímabilinu.[15]

Í ágúst 2021 var Conte formlega kjörinn forseti Fimmstjörnuhreyfingarinnar. Hann hafði haft náin tengsl við flokkinn en hafði þó verið óflokksbundinn á meðan hann var forsætisráðherra.[16]

Tilvísanir


Fyrirrennari:
Paolo Gentiloni
Forsætisráðherra Ítalíu
(1. júní 201813. febrúar 2021)
Eftirmaður:
Mario Draghi