Kókoseyjar

Kókoseyjar (eða Keeling-eyjar) eru eyjaklasi í Indlandshafi, suðvestan við Jólaeyju og miðja vegu milli Ástralíu og Srí Lanka. Eyjarnar eru undir yfirráðum Ástralíu. Í eyjaklasanum eru tvær baugeyjar með samtals 27 kóraleyjum. Tvær þeirra, Vesturey og Heimaey, eru byggðar. Um 600 manns búa á eyjunum.

Territory of the Cocos (Keeling) Islands
Fáni Kókoseyja
Fáni
Kjörorð:
Maju Pulu Kita
Staðsetning Kókoseyja
HöfuðborgVesturey
Opinbert tungumálenska
StjórnarfarÞingbundin konungsstjórn

KonungurKarl 3.
LandstjóriDavid Hurley
Ástralskt umdæmi
 • Innlimað í
Breska heimsveldið

1857 
 • Undir ástralskri stjórn1955 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

14 km²
0
Mannfjöldi
 • Samtals (2016)
 • Þéttleiki byggðar

544
43/km²
Gjaldmiðillástralskur dalur
TímabeltiUTC+6:30
Þjóðarlén.cc
Landsnúmer+61 891

Eyjarnar voru upphaflega nefndar eftir skipstjóranum William Keeling sem uppgötvaði þær árið 1609. Þær voru óbyggðar fram á 19. öld þegar enskur ævintýramaður, Alexander Hare, settist þar að með fjörutíu konum. Skoskur skipstjóri, John Clunies-Ross, settist þar að skömmu síðar og hrakti Hare frá eyjunum. Bretar lögðu eyjarnar formlega undir sig árið 1857 en Viktoría Bretadrottning gaf afkomendum Clunies-Ross eyjarnar til eilífrar eignar árið 1886. Árið 1901 var sett upp símskeytastöð með neðansjávartengingum við aðrar eyjar á Indlandshafi. Stöðin reyndist mikilvæg í fyrri og síðari heimsstyrjöld. Eftir stríðið var eyjunum fyrst stjórnað frá Singapúr en Ástralía tók við stjórn þeirra árið 1955. Ástralska stjórnin neyddi Clunies-Ross-fjölskylduna til að selja eyjarnar árið 1978.

Afkomendur upprunalegu landnemanna eru kallaðir Kókosmalajar. Þeir eru um 5000 talsins og búa flestir í Malasíu en um 400 búa enn á eyjunum. Þeir tala Basa Pulu Kokos sem er afbrigði af malasísku með enskum og skoskum tökuorðum og aðhyllast súnní íslamstrú.

Heiti

Eyjarnar hafa verið kallaðar Kókoseyjar frá 1622, Keeling-eyjar frá 1703, Kókos-Keeling-eyjar af James Horsburgh 1805, og Keeling-Kókoseyjar á 19. öld.[1] „Kókos-“ vísar til kókospálma sem vaxa á eyjunum, en „Keeling-“ er vísun í William Keeling sem uppgötvaði eyjarnar árið 1609.[1]

John Clunies-Ross,[2] sem sigldi þangað á kaupskipinu Borneo árið 1825, kallaði eyjarnar Borneókóraleyjar, en notaði „Keeling“-nafnið aðeins um eina eyjuna, North Keeling, og „Kókoseyjar“ aðeins um South Keeling.[3][4] Rithátturinn „Kókos(Keeling)-eyjar“ kom fyrst fyrir árið 1916,[5] og varð opinber með Kókos(Keeling)-eyjalögunum 1955.[1]

Malasíska heitið er Pulu Kokos (Keeling). Á skiltum á eyjunum eru líka malasískar þýðingar.[6][7]

Efnahagslíf

Íbúar á eyjunum eru um 600 talsins. Ferðaþjónusta er enn lítil en fer vaxandi og byggist á strandferðamennsku og afþreyingu. Árið 2016 nefndi rithöfundurinn Brad Farmer, höfundur bókarinnar 101 Best Beaches 2017, eina strönd á Direction Island „bestu strönd Ástralíu“.[8][9]

Matvælaframleiðsla felst aðallega í lítilsháttar garðrækt og fiskveiðum, en mest af matvælum og öðrum nauðsynjum er flutt inn frá Ástralíu og fleiri stöðum.

Fyrirtækið Cocos Islands Cooperative Society Ltd. ræður verkafólk í byggingarvinnu, uppskipun og siglingu léttabáta. Aðrir vinna við ferðaþjónustu. Atvinnuleysi var 6,7% árið 2011.[10]

Tilvísanir

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.