Kraftlyftingar

Kraftlyftingar eru kraftaíþrótt sem svipar til ólympískra lyftinga, en í báðum íþróttum er keppst við að lyfta sem mestri þyngd í þremur tilraunum. Í kraftlyftingum eru þrjár keppnisgreinar: Bekkpressa, hnébeygja og réttstöðulyfta.

Bekkpressa er ein grein kraftlyftinga.

Kraftlyftingar á Íslandi

Kraftlyftingar eru eftir samþykki framkvæmdastjórnar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og skipan í stjórn fyrstu Kraftlyftinganefndar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, þann 24. mars 2009, hluti af löglegum íþróttum á Íslandi þ.e.a.s. íþróttum sem grundvölluð eru á íþróttalögum og þjóðaréttarlegum samningum um íþróttamál m.a. um lyfjaeftirlitsmál í íþróttum sem skuldbinda Ísland að þjóðarétti og gildi hafa að íslenskum landsrétti.

Keppni í kraftlyftingum

Keppnisgreinar

Hnébeygja

Hnébeygjan er framkvæmd þannig að farið er undir stöng svo að hægt sé að ýta herðunum upp undir hana. Því næst lyftir viðkomandi stönginni af höldunum með því að rétta alveg úr sér og gengur sem fæst skref frá höldunum. Þar nær hann jafnvægi á þyngdinni. Því næst beygir viðkomandi hnén svo að ofanvert lærið framanvert fari niður fyrir framanvert hnéð og stendur svo aftur upp með þyngdina ef hann kemur því við.

Bekkpressa

Bekkpressan er framkvæmd þannig að lagst er á bekk undir stöng sem situr á höldum. Þar kemur viðkomandi sér kyrfilega fyrir, lyftir stönginni af höldunum, fer því næst með hana niður að bringu, bíður örstutta stund og lyftir svo þyngdinni aftur upp og skilar af ef hann getur. Í keppni mega aðstoðarmenn lyfta stönginni af höldunum og setja aftur á höldurnar þegar dómari leyfir.

Undanfarin ár hafa verið miklar deilur um notkun útbúnaðar í kraftlyftingakeppnum og hefur sú notkun hérlendis einkum skilað sér í miklum bætingum á bekkpressu í keppni. Þetta ber að hafa í huga þegar metin eru skoðuð.

Réttstöðulyfta

Réttstöðulyftan er móðir allra kraftahreyfinga. Stöngin er á gólfinu og þarf að lyfta henni upp þannig að viðkomandi réttir fullkomlega úr sér og axlir eru sperrtar. Ekki má stoppa lyftuna á miðri leið og ekki má jugga henni upp.

Aldursflokkar

Í kraftlyftingum er keppt í 7 aldursflokkum sem ná frá 14 ára aldri og upp úr. Haldin eru sérstök mót þar sem að aðeins ákveðnir aldursflokkar fá að keppa, t.a.m. unglingamót eða öldungamót. Flest kraftlyftingamót eru þó opin fyrir alla aldursflokka.

  • Æskuflokkur (enska: Sub-junior category) er yngsti aldursflokkurinn í kraftlyftingum og inniheldur hann börn sem náð hafa 14 ára aldri (miðast við afmælisdag) til loka 18. almanaksárs þeirra. Það er því breytilegt eftir því hvenær viðkomandi á afmæli hve lengi hann er í æskuflokk. Á Íslandi er oftast talað um drengja- og stúlknaflokk til að aðgreina kynin.
  • Unglingaflokkur (enska: Junior category) tekur við af æskuflokk og hefst við upphaf 19. almanaksárs einstaklings og nær til loka þess 23.
  • Opinn flokkur (enska: Open category) inniheldur alla einstaklinga sem náð hafa 14 ára aldri. Opinn flokkur er sammengi allra aldursflokka.
  • Öldungaflokkur I (enska: Masters I category) spanar 10 ára tímabil sem nær frá upphafi 40. almanaksárs til loka þess 49.
  • Öldungaflokkur II (enska: Masters II category) spanar 10 ára tímabil sem nær frá upphafi 50. almanaksárs til loka þess 59.
  • Öldungaflokkur III (enska: Masters III category) spanar 10 ára tímabil sem nær frá upphafi 60. almanaksárs til loka þess 69.
  • Öldungaflokkur IV (enska: Masters IV category) inniheldur alla einstaklinga sem náð hafa 70 ára aldri.

Þyngdarflokkar

Þyngdarflokkar í kraftlyftingum eru breytilegir eftir aldursflokkum (æsku- og unglingaflokkar innihalda einn auka þyngdarflokk fyrir léttustu keppendurna). Þann 1. janúar 2011 tók alþjóða kraftlyftingasambandið (IPF) upp nýja þyngdarflokka og fækkaði þeim niður í 8 fyrir bæði kyn en áður höfðu þeir verið 11 fyrir karla og 10 fyrir konur.

Heiti þyngdarflokka í töflunni hér fyrir neðan tákna mestu þyngd í hverjum flokk, t.d. inniheldur 93 kg flokkur karla þá sem vigtast frá 83,01 kg til 93,00 kg. Undantekningar á þessari reglu eiga við þyngstu flokkana en heiti þeirra táknar þá þyngd sem einstaklingar í flokknum vega yfir, t.d. eru vega einstaklingar í +120 kg flokk karla frá 120,01 kg og upp úr.

Þyngdarflokkar í kraftlyftingum
Frá 2011Karlar59 kg66 kg74 kg83 kg93 kg105 kg120 kg+120 kg
Konur43 kg47 kg52 kg57 kg63 kg72 kg84 kg+84 kg
Fyrir 2011Karlar52 kg56 kg60 kg67,5 kg75 kg82,5 kg90 kg100 kg110 kg125 kg+125 kg
Konur44 kg48 kg52 kg56 kg60 kg67,5 kg75 kg82,5 kg90 kg+90 kg
Aðeins í æsku- og unglingaflokkum

Tenglar

  Þessi kraftlyftingagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.