Túaregar

Þjóðflokkasamband í Saharaeyðimörkinni

Túaregar eru berbískt þjóðflokkasamband. Þeir búa aðallega í Saharaeyðimörkinni á miklu svæði sem teygir sig frá suðvesturhluta Líbíu til suðurhluta Alsír, Níger, Malí og Búrkína Fasó.[1] Túaregar hafa sögulega verið smalar og hirðingjar og fámennir hópar þeirra búa einnig í norðurhluta Nígeríu.[2]

Túaregi í sandinum fyrir utan þorpið Djanet á landamærum Alsír og Líbíu árið 2012.

Túaregar tala samnefnt tungumál (einnig kallað Tamasheq) sem tilheyrir berbískri kvísl afróasísku tungumálafjölskyldunnar.[3]

Túaregar hafa stundum verið kallaðir „bláa fólkið“ vegna hefðbundinna blárra viðhafnarklæða sinna, sem hafa átt það til að flekka hörund þeirra með litarefni sínu.[4][5] Þeir eru íslömsk hirðingjaþjóð sem talið er að sé komin af berbískum frumbyggjum Norður-Afríku.[6] Túaregar voru meðal þeirra þjóða sem höfðu hvað mest áhrif á útbreiðslu íslams og þróun trúarinnar í Norður-Afríku og nágrannasvæðinu Sahel.[7] Í menningu Túarega er þó ýmsum siðum frá því fyrir daga íslams viðhaldið; til dæmis eru ættir raktar í kvenlegg en ekki karllegg og karlar bera slæður en ekki konur.[8]

Túaregar eru ættbálkasamfélag þar sem hver ættbálkur hefur sitt stigveldi og sína stéttskiptingu.[4][9][10] Túaregar hafa stjórnað ýmsum verslunarleiðum gegnum Sahara og hafa leikið lykilhlutverk í mörgum hernaðardeilum í kapphlaupinu um Afríku og eftir afnýlendun álfunnar.[4]

Tilvísanir

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.