Sumarólympíuleikarnir 1984

Sumarólympíuleikarnir 1984 voru haldnir í Los Angeles, Kaliforníu í Bandaríkjunum 28. júlí til 12. ágúst 1984. Lukkudýr leikanna var Ólympíuörninn Sámur. Forseti Bandaríkjanna, Ronald Reagan, setti leikana.

Fánar dregnir að húni fyrir verðlaunaafhendingu í skotfimi.

Vegna þeirrar ákvörðunar Bandaríkjamanna að hunsa Ólympíuleikana í Moskvu 1980 ákváðu fjórtán lönd í Austurblokkinni og bandamenn þeirra að hunsa þessa ólympíuleika. Þar á meðal voru Sovétríkin, Austur-Þýskaland og Kúba. Íran og Líbýa hunsuðu einnig leikana, en af öðrum ástæðum. Þessi lönd skipulögðu Vináttuleikana í níu löndum Ólympíuleikunum til höfuðs.

Aðdragandi og skipulag

Hryðjuverkin á leikunum í München 1972 og gríðarlegt tap á leikunum í Montréal 1976 ollu því að borgir heims voru hikandi við að falast eftir Ólympíuleikum þegar komið var fram á seinni hluta áttunda áratugarins. Í taun bárust bara tvö boð í að halda leikana árið 1984, annað frá Los Angeles sem falast hafði eftir að halda tvær fyrri keppnir og frá Teheran, sem var talið langsótt frá upphafi. Ekki kom til þess að kjósa þyrfti á milli borganna tveggja því Íranska byltingin í upphafi árs 1978 gerði það að verkum að sjálfhætt var með umsókn Teheran. Los Angeles er því í hópi örfárra borga sem hreppt hefur Ólympíuleika án keppni.

Keppnisgreinar

Keppt var í 221 grein. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.

Handknattleikskeppni ÓL 1984

Vegna sniðgöngu nokkurra Austur-Evrópuríkja bauðst íslenska handknattleiksliðinu að taka þátt á leikunum. Keppt var í tveimur sex liða riðlum.

Íslenska liðið hóf keppni gegn Júgóslövum og missti góða forystu niður í jafntefli á lokasprettinum. Því næst kom stórtap gegn Rúmenum. Í kjölfarið komu góðir sigrar gegn Japönum, Alsír og Sviss. Loks tapaði íslenska liðið fyrir Svíum í leik um fimmta sætið.

Júgóslavar urðu Ólympíumeistarar eftir sigur á Vestur-Þjóðverjum í úrslitum og Rúmenar höfnuðu í þriðja sæti. Með árangri sínum tryggðu Íslendingar sér sæti á heimsmeistaramótinu í Sviss 1986.

Þátttaka Íslendinga á leikunum

Auk handknattleikslandsliðsins, sendu Íslendingar fjóra sundmenn, sjö frjálsíþróttamenn, tvo júdókappa og tvo kappsiglingarmenn á leikana.

Bjarni Friðriksson varð hetja Íslendinga á leikunum þegar hann hlaut bronsverðlaun í -95 kílógramma flokki í júdó. Voru það fyrstu verðlaun Íslands frá því í Melbourne 1956.

Einar Vilhjálmsson náði langbestum árangri frjálsíþróttafólksins. Hann varð sjötti í spjótkastskeppninni. Kringlukastarinn Vésteinn Hafsteinsson féll á lyfjaprófi og var árangur hans strikaður út.

Fjögur Íslandsmet litu dagsins ljós í sundkeppninni, þar sem Guðrún Fema Ágústsdóttir og Tryggvi Helgason slógu tvö met hvort.

Siglingamennirnir Gunnlaugur Jónasson og Jón Pétursson kepptu í siglingu á 470-tvímenningskænu og höfnuðu í 23. sæti af 28.

Verðlaunaskipting eftir löndum

NrLöndGullSilfurBronsAlls
1 Bandaríkin836130174
2 Rúmenía20161753
3 Vestur-Þýskaland17192359
4 Kína158932
5 Ítalía1461232
6 Kanada10181644
7 Japan1081432
8 Nýja-Sjáland81211
9 Júgóslavía74718
10 Suður-Kórea66719
11  Bretland5112137
12  Frakkland571628
13 Holland52613
14  Ástralía481224
15  Finnland42612
16  Svíþjóð211619
17 Mexíkó2316
18 Marokkó2002
19  Brasilía1528
20 Spánn1225
21  Belgía1124
22  Austurríki1113
23 Kenýa1023
Portúgal1023
25 Pakistan1001
26  Sviss0448
27  Danmörk0336
28 Jamæka0123
 Noregur0123
30 Grikkland0112
Nígería0112
Púertó Ríkó0112
33 Kólumbía0101
Fílabeinsströndin0101
Egyptaland0101
Írland0101
Perú0101
Sýrland0101
Tæland0101
40 Tyrkland0033
Venesúela0033
42 Alsír0022
43 Kamerún0011
Tævan0011
Dóminíska lýðveldið0011
 Ísland0011
Sambía0011
Alls226219243688

Tenglar