Turks- og Caicoseyjar

Turks- og Caicoseyjar eru tveir eyjaklasar með samtals um þrjátíu eyjar suðaustan við Bahamaeyjar. Eyjaklasarnir eru hinar stærri Caicoseyjar og hinar minni Turkseyjar sem allar eru hluti af Lucayaneyjum sem einnig ná yfir Bahamaeyjar. Eyjarnar eru breskt yfirráðasvæði handan hafsins. Turks- og Caicoseyjar eru aðallega þekktar sem ferðamannastaður og fyrir aflandsbankaþjónustu. Meirihluti íbúanna, sem taldir eru vera rúm 40.000, búa á eyjunni Providenciales í Caicoseyjaklasanum.

Turks and Caicos Islands
Fáni Turks- og CaicoseyjaSkjaldarmerki Turks- og Caicoseyja
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Each Endeavouring, All Achieving
Þjóðsöngur:
God Save the King
Staðsetning Turks- og Caicoseyja
HöfuðborgCockburn Town
Opinbert tungumálenska
StjórnarfarÞingbundin konungsstjórn

KonungurKarl 3.
LandstjóriNigel Dakin
StjórnarleiðtogiWashington Misick
Bresk hjálenda
 • Parísarsáttmálinn 17833. september 1783 
 • Sambandsríki Vestur-Indía3. janúar 1958 
 • Sjálfstæð krúnunýlenda31. maí 1962 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

948 km²
~0
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
215. sæti
44.542
47/km²
GjaldmiðillBandaríkjadalur
TímabeltiUTC-5 (-4 á sumrin)
Þjóðarlén.tc
Landsnúmer+1-649

Turks- og Caicoseyjar eru suðaustan við eyjuna Mayaguana í Bahamaeyjaklasanum, norðaustan við Kúbu og norðan við Hispaníólu (Haítí og Dóminíska lýðveldið). Frá 1766 hefur höfuðstaður eyjanna verið Cockburn Town á Grand Turk-eyju, um 1.042 km aust-suðaustan við Miami í Bandaríkjunum. Eyjarnar eru samtals um 616 ferkílómetrar að stærð.

Turks- og Caicoseyjar voru byggðar indíánum frá fornu fari. Evrópumenn sáu eyjarnar fyrst 1512. Næstu aldir gerðu ýmis Evrópuveldi tilkall til eyjanna. Á endanum féllu þær í hlut Breska heimsveldisins. Lengst af heyrðu eyjarnar undir aðrar breskar nýlendur, eins og Bermúda, Bahamaeyjar og Jamaíku. Eyjarnar urðu sérstök nýlenda undir landstjóra Jamaíku árið 1959 og þegar Jamaíka fékk sjálfstæði 1962 urðu þær sjálfstæð krúnunýlenda, en heyrðu undir landstjórann á Bahamaeyjum. Þegar þær fengu svo sjálfstæði 1973 fengu Turks- og Caicoseyjar fyrst eigin landstjóra.

Heiti

Nafnið Caico kemur úr taínómálum, caya hico, sem merkir „röð af eyjum“.[1][2] Turkseyjar eru nefndar eftir tegund af kaktus, Melocactus tortus, sem nefnist Turk's cap cactus („Tyrkjahúfukaktus“) á ensku af því toppurinn á honum er rauður og minnir á fez-húfur sem tyrkneskir karlar gengu með seint á 19. öld.[1][2]

Saga

Fyrstu íbúar eyjanna voru Taínóar sem töluðu aravakísk mál og sigldu þangað líklega frá Hispaníólu milli 500 og 800.[3] Þetta fólk varð þekkt sem Lúkajar, ásamt þeim Taínóum sem fluttust frá Kúbu til Bahamaeyja á sama tíma.[4][5] Um 1200 komu þangað nýir hópar Taínóa frá Hispaníólu.

Ekki er vitað hvaða Evrópubúar sáu eyjarnar fyrstir. Sumir telja að Kristófer Kólumbus hafi komið auga á þær í ferð sinni til Ameríku árið 1492,[4] en aðrir telja líklegra að spænski landvinningamaðurinn Juan Ponce de León hafi komið þangað fyrstur árið 1512.[6] Um það leyti voru Spánverjar byrjaðir að ræna þar Taínóum og Lúköjum til að bæta upp skort á þrælum fyrir encomienda-býli á Hispaníólu.[7]: 92–99 [8]: 159–160, 191  Afleiðingin af þessu varð að frumbyggjar fengu sjúkdóma sem þeir höfðu ekkert ónæmi fyrir og hrundu niður. Um 1513 voru Turks- og Caicoseyjar og Suður-Bahamaeyjar orðnar mannlausar og héldust þannig fram á 17. öld.[9]: 34–37 [10]: 37–39 [11]

Evrópsk nýlenda

Frá miðri 17. öld tóku evrópskir landnemar að safna salti úr grunnum lónum eyjanna og settust þar að síðar ásamt þrælum frá Afríku.[4][12] Í nokkra áratugi um aldamótin 1700 urðu eyjarnar vinsælt skjól fyrir sjóræningja.[12] Í Búrbónastríðinu 1778-1783 lögðu Frakkar eyjarnar undir sig 1783, en með Parísarsáttmálanum voru yfirráð Breta yfir nýlendunni staðfest. Eftir frelsisstríð Bandaríkjanna flúðu margir konungssinnar frá hinum nýstofnuðu Bandaríkjum til nærliggjandi breskra nýlendna, með afrískættaða þræla sína.[4][12] Þeir hófu að rækta bómull, en sú ræktun féll fljótlega í skuggann af saltvinnslunni. Landnemarnir fluttu inn fleiri þræla úr Atlantshafsversluninni til að vinna við saltþurrkunina, og þeir urðu brátt miklu fleiri en Evrópumenn á eyjunum.[4]

Árið 1799 voru Turkseyjar og Caicos-eyjar innlimaðar í Bretland, sem hluti Bahamaeyja.[4] Saltútflutningur varð helsta útflutningsafurðin langt fram á 19. öld.

19. öldin

Árið 1807 var þrælasala bönnuð í Bretlandi og árið 1833 var þrælahald afnumið í nýlendum Breta.[4] Bresk skip tóku stundum þrælaskip í Karíbahafi og slík skip strönduðu líka við strönd eyjanna. Árið 1837 strandaði portúgalska þrælaskipið Esperança á strönd Austur-Caicos, sem er ein af stærri eyjunum. Áhöfnin og 220 þrælar lifðu strandið af (en 18 þrælar fórust) og voru flutt til Nassá. Hluti þeirra var hugsanlega þeir 189 frelsuðu Afríkubúar sem settust að á Turks- og Caicoseyjum milli 1833 og 1840.[13]: 211 

Árið 1841 fórst spænska þrælaskipið Trouvadore við strönd Austur-Caicos. 20 manna áhöfn og 192 þrælar lifðu strandið af. Löggæslumenn á eyjunum frelsuðu þrælana og komu 168 þeirra fyrir sem lærlingum hjá landeigendum á Grand Turk Island í eitt ár. Við það jókst íbúafjöldi nýlendunnar um 7%.[13]: 212  Hinir 24 settust að í Nassá á Bahamaeyjum. Spænska áhöfnin var líka flutt þangað og síðan send til Kúbu þar sem réttað var yfir henni.[14] Í bréfi frá 1878 er talað um að „Afríkubúar af Trouvadore“ og afkomendur þeirra séu mikilvægur hluti af „vinnandi íbúum“ eyjanna.[13]: 210  Árið 2004 uppgötvuðu fornleifafræðingar frá Þjóðminjasafni Turks- og Caicoseyja skipsflak sem rannsóknir benda til að gæti verið flakið af Trouvadore. Í nóvember 2008 staðfesti rannsókn fjármögnuð af Bandarísku haffræði- og loftslagsstofnuninni að gripir úr flakinu komi heim og saman við að þeir séu úr Trouvadore.[13][14][15]

Árið 1848 voru Turks- og Caicoseyjar gerðar að sérstakri nýlendu undir ráðsforseta,[4] en 1873-4 voru eyjarnar gerðar hluti af nýlendunni á Jamaíku.[4] Árið 1894 var titli yfirmanns nýlendunnar breytt í fulltrúa. Árið 1917 stakk kanadíski ráðherrann Robert Borden upp á því að eyjarnar yrðu hluti af Kanada, en forsætisráðherra Bretlands, David Lloyd George, hafnaði því.[16]

20. og 21. öld

Þann 4. júlí 1959 voru eyjarnar aftur gerðar að sérstakri nýlendu og síðasti fulltrúinn varð stjórnandi Turks- og Caicoseyja. Landstjóri Jamaíku var áfram landstjóri eyjanna. Þegar Jamaíka fékk sjálfstæði frá Bretlandi í ágúst 1962 urðu Turks- og Caicoseyjar krúnunýlenda.[4] Frá 1965 var landstjóri Bahamaeyja líka landstjóri Turks- og Caicoseyja.[2]

Sharlene Cartwright-Robinson var fyrsti kvenkyns forsætisráðherra eyjanna, milli 2016 og 2021.

Þegar Bahamaeyjar fengu sjálfstæði 1973 fengu Turks- og Caicoseyjar sinn eigin landstjóra (síðasti stjórnandinn fékk það hlutverk).[4] Frá því í ágúst 1976 hafa eyjarnar haft eigin stjórn undir forsætisráðherra. Sá fyrsti var J. A. G. S. McCartney. Sjálfstæðisþreifingar stöðvuðust árið 1980 þegar flokkur sem var á móti sjálfstæði hlaut meirihluta í þingkosninum og eyjarnar hafa verið breskt yfirráðasvæði síðan þá.[4] Heimastjórnin var lögð niður milli 1986 og 1988 vegna ásakana um þátttöku stjórnvalda í eiturlyfjasmygli sem urðu til þess að forsætisráðherrann Norman Saunders var handtekinn.[4][17]: 495–6 

Árið 2002 voru eyjarnar gerðar að bresku handanhafssvæði og eyjarskeggjar fengu fullgildan breskan ríkisborgararétt.[4] Ný stjórnarskrá Turks- og Caicoseyja var samþykkt árið 2006, en árið 2009 sagði Michael Misick forsætisráðherra af sér vegna ásakana um spillingu, og Bretland tók yfir stjórn eyjanna.[18][4] Önnur stjórnarskrá var samþykkt í október 2012 og heimastjórnin tók aftur við stjórnartaumunum eftir kosningar í nóvember 2012.[4][19]: 56 

Árið 2010 ræddu leiðtogar Bahamaeyja og Turks- og Caicoseyja möguleikann á því að mynda sambandsríki.[20]

Í kosningum árið 2016 missti Framsækni þjóðarflokkurinn meirihluta sinn í fyrsta skipti síðan hann náði völdum frá ríkisstjórn Derek Hugh Taylor árið 2003. Lýðræðishreyfing alþýðunnar komst til valda og Sharlene Cartwright-Robinson varð forsætisráðherra.[21][4] Washington Misick tók svo við af henni eftir að Framsækni þjóðarflokkurinn sigraði kosningarnar 2021.[22]

Landfræði

Turks- og Caicoseyjar eru tveir eyjaklasar í Norður-Atlantshafi, suðaustan við Bahamaeyjar, norðaustan við Kúbu, um 160 km norðan við Hispaníólu, og um 1000 km frá Miami í Flórída í Bandaríkjunum. Eyjarnar eru hluti af Lúkajaeyjum, ásamt Bahamaeyjum. Turks Island-sund skilur milli eyjaklasanna tveggja. Caicos-sund skilur milli Caicos-eyja og næstu Bahamaeyja, Mayaguana og Great Inagua. Næsta erlenda eyja er smáeyjan Little Inagua, um 50 km frá West Caicos.

Eyjaklasarnir telja 8 stórar eyjar og yfir 22 smáeyjar sem samanlagt eru 616 ferkílómetrar að stærð. Eyjarnar eru flestar láglendar kalksteinseyjar með stórum mýrum og fenjaviðarskógum, auk 332 ferkílómetra af sandströndum. Hæstu tindar eyjanna eru Blue Hills á Providenciales og Flamingo Hill á East Caicos sem eru báðar 49 metrar á hæð. Veður á eyjunum er oftast sólríkt (sagt er að þar séu 350 sólardagar á ári[23]) og tiltölulega þurrt, en fellibylir ganga þar hlutfallslega oft yfir. Náttúrulegar ferskvatnsbirgðir á eyjunum eru takmarkaðar og regnvatni er safnað í vatnsþrær. Helstu náttúruauðlindir eyjanna eru svipukrabbi, kuðungar og aðrir skelfiskar. Þrenns konar vistsvæði eru skilgreind á eyjunum: bahamískur laufskógur, bahamískur furuskógur og antilleyskur fenjaskógur.[24]

Stjórnmál

Gata í Cockburn Town sem er höfuðborg Turks- og Caicoseyja.

Turks- og Caicoseyjar eru breskt handanhafssvæði.[2] Þjóðhöfðingi eyjanna er Karl 3. Bretakonungur og fulltrúi hans á eyjunum er landstjóri Turks- og Caicoseyja skipaður af konungi samkvæmt ráði utanríkisráðuneytis Bretlands.[2] Fyrsti stjórnarleiðtogi eyjanna var James Alexander George Smith McCartney þegar eyjarnar tóku upp sína fyrstu stjórnarskrá 30. ágúst 1976. Þjóðhátíðardagur eyjanna, stjórnarskrárdagurinn, er haldinn hátíðlegur árlega þann 30. ágúst.[25]

Lagakerfi eyjanna byggist á enskum fordæmisrétti með nokkrum sérlögum að fyrirmynd Jamaíku og Bahamaeyja. Almennur kosningaréttur gildir eftir 18 ára aldur. Opinbert tungumál er enska. Miðstöð stjórnsýslu landsins hefur verið í Cockburn Town á Grand Turk síðan 1766.

Turks- og Caicoseyjar eiga aðild að Þróunarbanka Karíbahafsins, CARICOM-bandalaginu, ogAlþjóðapóstsambandinu. Interpol rekur þar skrifstofu. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnýlenduvæðingu hefur sett landsvæðið á lista yfir ófullvalda lönd.

Samkvæmt nýrri stjórnarskrá sem tók gildi í október 2012 fer þing Turks- og Caicoseyja með löggjafarvaldið. Þar sitja 19 þingmenn, 15 kjörnir og fjórir tilnefndir af landstjóranum. Fimm eru landskjörnir og 10 í einmenningskjördæmum, til fjögurra ára í senn.[2]

Í þingkosningum árið 2021 vann Framsækni þjóðarflokkurinn yfirburðasigur og Washington Misick varð forsætisráðherra.[21]

Stjórnsýslueiningar

Turks- og Caicoseyjar skiptast í fimm stjórnsýsluumdæmi (eitt á Turks-eyjum og fjögur á Caicos-eyjum), og eyjuna Grand Turk Island. Fjögur umdæmanna hafa umdæmisstjóra og Providenciales-umdæmi heyrir undir fastaritara yfirráðherra á Providenciales. Grand Turk Island heyrir beint undir ríkisstjórn eyjanna.[26]

Kort af Turks- og Caicos-eyjum.
Nr.StjórnsýsluumdæmiStjórnarseturStærð (km2)[27]ÍbúarKjördæmi
Caicos-eyjar
1Providenciales (þar á meðal West Caicos)Providenciales163,623.7696
2North CaicosBottle Creek144,91.4432
3Middle CaicosConch Bar144,21681
4South Caicos (þar á meðal East Caicos)Cockburn Harbour136,81.1392
Turks-eyjar
5Grand TurkGrand Turk17,64.8314
6Salt CaySalt Cay9,1108-
AllsGrand Turk616,331.45815

Efnahagslíf

Móttaka skemmtiferðaskipa á Grand Turk.

Ferðaþjónusta er undirstaða efnahagslífs eyjanna, auk aflandsbankaþjónustu og fiskveiða.[2][4] Bandaríkjadalur er gjaldmiðillinn á eyjunum.

Sögulega séð byggðist efnahagur eyjanna á saltvinnslu, auk lítils útflutnings á svampi og hampi. Þessi iðnaður stóð þó varla undir lífi á eyjunum og fólksfjöldinn stóð lengi í stað. Á 7. áratugnum hófu bandarískir fjárfestar að byggja upp ferðaþjónustu með gerð flugvallar á Providenciales og fyrsta hóteli eyjanna, The Third Turtle. Club Med reisti frístundabyggð í Grace Bay skömmu síðar og fjármagnaði endurbyggingu flugvallarins svo hann bæri stærri flugvélar. Síðan þá hefur ferðaþjónustan vaxið jafnt og þétt.[4]

Árið 2009 skiptist verg landsframleiðsla þannig að hótel- og veitingaþjónusta var 34,7%, fjármálaþjónusta 13,12%, byggingariðnaður 7,83%, flutningar, geymslur og samskipti 9,9% og fasteignaþjónusta 9,56%.[28] Eyjarnar flytja inn megnið af neysluvöru sinni.[2] Árið 2010/2011 voru helstu tekjulindir hins opinbera á eyjunum tollur á innflutning (43,31%), gjöld á flutninga innanlands (8,82%), atvinnuleyfi og dvalargjöld (10,03%) og gistináttaskattur (24,95%).[28] Verg landsframleiðsla árið 2020 var áætluð tæpur milljarður bandaríkjadala að nafnvirði.[29]

Íbúar

Átta af eyjunum 30 eru byggðar. Samkvæmt manntali frá 25. janúar 2012 bjuggu 31.458 manns á eyjunum, sem var 58,2% fjölgun frá manntalinu 2001, þegar íbúar voru 19.886.[30] Í júlí 2021 var áætlaður íbúafjöldi 57.196.[2] Þriðjungur íbúa er undir 15 ára aldri og aðeins 4% eru eldri en 65 ára. Ungbarnadauði var 18,66 á hverjar 1000 fæðingar og lífslíkur við fæðingu voru 73,28 ár. Fæðingartíðni var 3,25 börn á konu og ársfjölgun er 2,82%.

Langflestir íbúar, eða yfir 30 þúsund, búa á eyjunni Providenciales. Þar á eftir kemur Grand Turk með rúmlega 8 þúsund íbúa. South Caicos og North Caicos hafa yfir 2000 íbúa hvor, en fjöldi íbúa á öðrum eyjum er miklu minni.

Menning

Þjóðminjasafn Turks- og Caicoseyja á Grand Turk.

Turks- og Caicoseyjar eru þekktastar fyrir ripsaw-tónlist sem er upprunnin á eyjunum.[31]: 34  Árlega er haldin tónlistar- og menningarhátíð með þátttöku þekkts listafólks frá eyjunum og víðar í Karíbahafi og Norður-Ameríku.

Hefðbundið handverk á eyjunum er meðal annars stráhattar og töskur á Caicoseyjum. Hugsanlega barst þessi hefð til eyjanna með þrælum sem sluppu þangað frá þrælaskipum sem strönduðu á fyrri hluta 19. aldar og færðu með sér kunnáttu í ýmis konar handiðnum.[13]

Vinsælustu íþróttirnar á eyjunum eru fiskveiðar, siglingar, knattspyrna og krikket, sem er þjóðaríþróttin.

Matargerð á Turks- og Caicoseyjum snýst aðallega um sjávarfang, sérstaklega sæsnigla.[32] Tveir algengir réttir eru djúpsteiktir sæsniglar og sæsniglasalat.[33]

Tilvísanir

Tenglar