Andrej Gromyko

Sovéskur stjórnmálamaður

Andrej Andrejevítsj Gromyko (rússneska: Андрей Андреевич Громыко; hvítrússneska: Андрэй Андрэевіч Грамыка; 18. júlí 1909 – 2. júlí 1989) var sovéskur stjórnmálamaður og ríkiserindreki á tíma kalda stríðsins. Hann var utanríkisráðherra Sovétríkjanna í rúman aldarfjórðung, frá 1957 til 1985, og síðan þjóðhöfðingi landsins sem formaður forsætisnefndar Æðstaráðs Sovétríkjanna frá 1985 til 1988. Gromyko bar ábyrgð á mörgum mikilvægustu ákvörðunum í sovéskri utanríkisstefnu þar til hann settist í helgan stein árið 1988. Á fimmta áratugnum kölluðu vestrænir fjölmiðlar hann gjarnan „Hr. Njet“ vegna þess hve oft hann beitti neitunarvaldi Sovétríkjanna við Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Andrej Gromyko
Андрей Громыко
Gromyko árið 1972.
Forseti forsætisnefndar Æðstaráðs Sovétríkjanna
Í embætti
27. júlí 1985 – 1. október 1988
ForveriVasílíj Kúznetsov (starfandi)
EftirmaðurMíkhaíl Gorbatsjov
Utanríkisráðherra Sovétríkjanna
Í embætti
15. febrúar 1957 – 2. júlí 1985
ForsætisráðherraNíkolaj Búlganín
Níkíta Khrústsjov
Aleksej Kosygín
Níkolaj Tíkhonov
ForveriDmítríj Shepílov
EftirmaðurEduard Sjevardnadse
Persónulegar upplýsingar
Fæddur18. júlí 1909
Starje Gromykí, Mogílev-landstjóraumdæminu, rússneska keisaraveldinu (nú Hvíta-Rússlandi)
Látinn2. júlí 1989 (79 ára)Moskvu, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Sovétríkjanna
MakiLídíja Grínevítsj (g. 1931)
BörnAnatolíj, Emílíja

Æviágrip

Andrej Gromyko fæddist fátækur bændasonur í þorpinu Starje Gromykí í Hvíta-Rússlandi árið 1909.[1] Hann var átta ára gamall þegar kommúnistar tóku völdin í rússnesku byltingunni árið 1917.[2] Hann gekk í skóla í hvítrússnesku höfuðborginni Minsk og lagði þar stund á landbúnaðarhagfræði. Hann kynntist eiginkonu sinni, Lídíju Grínevítsj, á námsárum sínum og eignaðist með henni tvö börn.[1]

Gromyko hóf nám í diplómataskóla Kreml árið 1938 og nam utanríkisfræði Sovétstjórnarinnar í eitt ár. Hann hlaut síðan starf í sendiráði Sovétríkjanna í Bandaríkjunum og flutti því ásamt konu sinni og börnum til Washington. Skjótur frami Gromykos skýrðist að nokkru leyti af þeim mikla fjölda embættismanna sem höfðu látið lífið í hreinsunum Stalíns.[1] Árið 1943 var sovéski sendiherrann, Maksím Lítvínov, kallaður heim og Gromyko var því hækkaður í tign og gerður nýr sendiherra. Sem slíkur mætti hann á Dumbarton Oaks-ráðstefnuna fyrir hönd Sovétmanna næsta ár.[2]

Árið 1946 varð Gromyko fyrsti fastafulltrúi Sovétríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Gromyko gegndi þessu embætti í tvö ár og beitti á þeim tíma neitunarvaldi Sovétríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna 25 sinnum, sem leiddi til þess að honum áskotnaðist uppnefnið „Herra Njet“.[1]

Þegar Andrej Vyshínskíj tók við af Vjatsjeslav Molotov sem utanríkisráðherra Sovétríkjanna árið 1949 var Gromyko gerður varamaður hans í ráðuneytinu. Þar sem Vyshínskíj var heilsuveill fór Gromyko í reynd með málefni ráðuneytisins oftar en ekki á upphafsdögum kalda stríðsins. Gromyko var síðar gerður sendiherra Sovétmanna í Bretlandi og var enn staðsettur þar þegar Jósef Stalín lést árið 1953.[1]

Eftir dauða Stalíns varð Molotov utanríkisráðherra á ný og hann kallaði Gromyko strax heim til starfa í ráðuneytinu. Molotov var hins vegar leystur úr embætti eftir að Níkíta Khrústsjov hafði tryggt völd sín sem nýr leiðtogi Sovétríkjanna og Gromyko varð því nýr utanríkisráðherra árið 1957.[1]

Gromyko naut ekki mikilla áhrifa á stjórnartíð Khrústsjovs, sem tók sjálfur flestar mikilvægar ákvarðanir í utanríkismálum. Khrústsjov mun hafa sagt um Gromyko að hann gæti skipað honum að girða niður um sig buxurnar og setjast með beran rassinn á ís og að Gromyko myndi hlýða. Talið er að Gromyko hafi ekki fengið að vita um fyrirætlanir Khrústsjovs um að koma fyrir kjarnaeldflaugum á Kúbu árið 1962, sem leiddi til Kúbudeilunnar við Bandaríkin.[3] Gromyko var með í ráðum í Berlínardeilunni og átti hlut að máli þegar Berlínarmúrinn var reistur árið 1961. Hann tók jafnframt þátt í samningu fjórveldasáttmálans um stöðu Berlínar um áratugi síðar.[4]

Khrústsjov var sviptur völdum árið 1964 en Gromyko var áfram utanríkisráðherra og áhrif hans jukust til muna eftir leiðtogaskiptin. Eftirmaður Khrústsjovs, Leoníd Brezhnev, studdist við ráð Gromykos í mun meiri mæli og árið 1973 hlaut Gromyko sæti í stjórnmálanefnd Kommúnistaflokksins.[3] Á stjórnartíð Brezhnevs tók Gromyko þátt í mótun „slökunarstefnunnar“ (détente) og í skipulagningu Helsinkiráðstefnunnar 1975.[4] Vegna sérhæfingar Gromykos var þó sjaldan bent á hann sem mögulegt leiðtogaefni til að taka við af Brezhnev.[5]

Gromyko hélt áfram sem utanríkisráðuneytinu eftir að Brezhnev lést árið 1982. Í mars 1983 var hann jafnframt skipaður einn af þremur aðstoðarforsætisráðherrum í stjórn Níkolaj Tíkhonov forsætisráðherra.[6]

Eftir að Míkhaíl Gorbatsjov, sem Gromyko hafði stutt, varð leiðtogi sovéska kommúnistaflokksins árið 1984 lét hann fljótt skipta um utanríkisráðherra og setti Eduard Sjevardnadse, leiðtoga flokksdeildar kommúnistaflokksins í Georgíu, í embættið.[1] Næsta ár tók Gromyko þess í stað við embætti forseta forsætisnefndar Æðstaráðs Sovétríkjanna, sem gerði hann lögformlega að æðsta manni ríkisins en dró í reynd nokkuð úr beinum völdum hans.[7][8]

Gromyko gegndi forsetaembættinu til ársins 1988 en þá ákvað Gorbatsjov að gerast sjálfur þjóðhöfðingi. Gromyko missti jafnframt sæti sín í stjórnmálanefnd og miðstjórn flokksins og settist í helgan stein. Hann lést næsta ár, 79 ára gamall.[6]

Tilvísanir


Fyrirrennari:
Dmítríj Shepílov
Utanríkisráðherra Sovétríkjanna
(15. febrúar 19572. júlí 1985)
Eftirmaður:
Eduard Sjevardnadse
Fyrirrennari:
Vasílíj Kúznetsov
(starfandi)
Forseti forsætisnefndar Æðstaráðs Sovétríkjanna
(27. júlí 19851. október 1988)
Eftirmaður:
Míkhaíl Gorbatsjov