Ebrahim Raisi

8. og núverandi forseti Írans

Sayyid Ebrahim Raisol-Sadati (persneska: سید ابراهیم رئیس‌الساداتی‎; f. 14. desember 1960) er íranskur íhaldssamur stjórnmálamaður og dómari sem er núverandi forseti Írans. Hann var kjörinn í forsetakosningum árið 2021 og tók við af Hassan Rouhani í embættinu þann 3. ágúst.

Ebrahim Raisi
ابراهیم رئیسی
Raisi árið 2021.
Forseti Írans
Núverandi
Tók við embætti
3. ágúst 2021
ÞjóðhöfðingiAli Khamenei
ForveriHassan Rouhani
Persónulegar upplýsingar
Fæddur14. desember 1960 (1960-12-14) (63 ára)
Mashhad, Íran
ÞjóðerniÍranskur
MakiJamileh Alamolhoda
Börn2
HáskóliShahid Motahari-háskóli[1]
Qom-klerkaskólinn[1]

Sem dómari hefur Raisi verið bendlaður við aftökur á pólitískum föngum á níunda áratuginum. Talið er að hann hafi ásamt þremur öðrum dómurum skipað um 5.000 aftökur.[2] Raisi sætir persónulegum efnahagslegum refsiaðgerðum af hálfu Bandaríkjanna vegna ábyrgðar hans á aftökunum. Andstæðingar hans hafa gefið honum viðurnefnið „slátrarinn frá Teheran“.[3]

Raisi er tryggur stuðningsmaður Ali Khamenei, æðstaklerks Írans, og hefur verið nefndur sem hugsanlegur arftaki hans.[2] Raisi bauð sig fram til forseta árið 2017 en tapaði fyrir sitjandi forsetanum Hassan Rouhani, sem var talinn ívið hófsamari og umbótasinnaðari. Raisi hlaut um 38% atkvæðanna á móti 57% sem Rouhani hlaut.[4] Eftir ósigur sinn í kosningunum var Raisi útnefndur forseti íranska hæstaréttarins.[2]

Raisi bauð sig aftur fram til forseta árið 2021. Í kosningunum hafnaði verndararáð Írans miklum meirihluta umsókna um forsetaframboð og því álitu margir að ríkisstjórnin hefði í reynd búið svo um hnútana að Raisi myndi vinna. Margir frjálslyndir Íranir sniðgengu kosningarnar í mótmælaskyni. Kjörsókn í kosningunum var mjög léleg en Raisi vann sigur með rúmum helmingi greiddra atkvæða.[5]

Frá því að Raisi tók við völdum í Íran hefur verið hert á reglum sem skylda íranskar konur til að klæðast hijab-slæðum og siðgæðislögregla ríkisins hefur fengið auknar heimildir til að láta framfylgja reglunum.[6] Þann 16. september 2022 hófust fjöldamótmæli gegn írönskum stjórnvöldum eftir að kúrdísk kona að nafni Jina Amini lést í haldi siðgæðislögreglunnar, sem hafði handtekið hana og misþyrmt henni vegna meints brots hennar gegn reglum um klæðaburð. Í ávarpi sem Raisi flutti þann 28. september sagði hann að öll þjóðin væri sorgmædd vegna andláts Jinu Amini en að stjórn hans gæti ekki leyft fólki að „trufla frið sam­fé­lags­ins með óeirð­u­m“. Í skjali sem lekið var til Amnesty International kom fram að yfirstjórn öryggissveita í Teheran hefði sent fyrirmæli til öryggissveita um allt landið þann 21. september um að tekið skyldi á mótmælendum með hörku.[7]

Tilvísanir


Fyrirrennari:
Hassan Rouhani
Forseti Írans
(3. ágúst 2021 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti


  Þetta æviágrip sem tengist stjórnmálum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.