Sahle-Work Zewde

Forseti Eþíópíu

Sahle-Work Zewde (f. 21 febrúar 1950) er núverandi forseti Eþíópíu og fyrsta konan til að gegna því embætti. Zewde á að baki langan feril sem ríkiserindreki og var kjörin forseti með öllum greiddum atkvæðum af eþíópíska sambandsþinginu þann 25. október árið 2018.[1] Líkt og í mörgum þingræðisríkjum er forsetaembætti Eþíópíu valdalítið og að mestu táknrænt.

Sahle-Work Zewde
ሳህለወርቅ ዘውዴ
Forseti Eþíópíu
Núverandi
Tók við embætti
25. október 2018
ForsætisráðherraAbiy Ahmed
ForveriMulatu Teshome
Persónulegar upplýsingar
Fædd21. febrúar 1950 (1950-02-21) (74 ára)
Addis Ababa, Eþíópíu
ÞjóðerniEþíópísk
StjórnmálaflokkurÓflokksbundin
HáskóliHáskólinn í Montpellier

Sahle-Work var áður sérstakur fulltrúi aðalritara Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, til Afríkusambandsins auk þess sem hún var æðsti ráðamaður Afríkudeildar Sameinuðu þjóðanna.[2][3]

Í desember árið 2019 taldi tímaritið Forbes Sahle-Work voldugustu konu í Afríku og 93. voldugustu konu á heimsvísu.[4][5]

Æviágrip

Sahle-Work Zewde fæddist í eþíópísku höfuðborginni Addis Ababa[6] og gekk þar í grunn- og gagnfræðiskólann Lycée Guebre-Mariam. Eftir grunnskólanám gekk hún í Háskólann í Montpellier í Frakklandi, þar sem hún nam náttúruvísindi.[7][8] Sahle-Work talar amharísku, frönsku og ensku reiprennandi.[9]

Starfsferill

Ferill í erindrekstri

Sahle-Work var önnur konan í sögu Eþíópíu sem var útnefnd sendiherra.[10][11] Hún vann sem sendiherra Eþíópíu í Senegal,[12] og hafði þar jafnframt faggildingu til að taka að sér málefni sem tengdist samskiptum Eþíópíu við Malí, Grænhöfðaeyjar, Gíneu-Bissá, Gambíu og Gíneu frá 1989 til 1993.[10] Frá 1993 til 2002 var hún sendiherra í Djíbútí og fastafulltrúi við Þróunarsamvinnustofnun Austur-Afríku (IGAD).[13][14] Hún varð síðar sendiherra Eþíópíu í Frakklandi, [12] fastafulltrúi við Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og hlaut faggildingu til að taka að sér málefni tengd Túnis og Marokkó frá 2002 til 2006.[15]

Sahle-Work gegndi síðar ýmsum mikilvægum hlutverkum. Meðal annars var hún fastafulltrúi Eþíópíu við Afríkusambandið og við Efnahagsnefndina fyrir Afríku (ECA) og aðalframkvæmdastjóri Afríkumálefna við utanríkisráðuneyti Eþíópíu.[15]

Starfsferill hjá Sameinuðu þjóðunum

Til ársins 2011 var Sahle-Work sérstakur fulltrúi Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, og leiðtogi Skrifstofu Sameinuðu þjóðanna um samþætta friðaruppbyggingu í Mið-Afríkulýðveldinu (BINUCA).[16]

Árið 2011 útnefndi Ban Sahle-Work aðalframkvæmdastjóra Skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Naíróbí (UNON).[17] Samkvæmt tímaritinu Africa Yearbook árið varð skrifstofan í Naíróbí undir stjórn Sahle-Work mikilvægari miðstöð Sameinuðu þjóðanna í málefnum Austur- og Mið-Afríku.[18]

Í júní árið 2018 útnefndi António Guterres aðalritari SÞ Sahle-Work sem sérfulltrúa sinn til Afríkusambandsins og leiðtoga Skrifstofu Sameinuðu þjóðanna við Afríkusambandið (UNOAU) með titlinum aðstoðaraðalritari.[15] Hún var fyrsta konan í því embætti.[17]

Forseti Eþíópíu

Sahle-Work var kjörin forseti Eþíópíu af sambandsþingi landsins þann 25. október 2018. Hún var fyrsta konan til að gegna forsetaembættinu[19] og fjórði forsetinn frá því að Lýðræðis- og byltingarhreyfing eþíópísku þjóðarinnar (EPRDF) komst til valda í nýja eþíópíska sambandslýðveldinu árið 1995.[20][21] Hún leysti af hólmi Mulatu Teshome, sem hafði sagt af sér af ókunnum ástæðum. Áætlað er að Sahle-Work muni gegna tveimur sex ára kjörtímabilum.[9] Sahle-Work er fyrsti kvenkyns þjóðhöfðingi Eþíópíu síðan keisaraynjan Zauditu lést árið 1930. Hún er önnur tveggja núverandi kvenkyns þjóðhöfðingja í Afríku ásamt Samiu Suluhu í Tansaníu.[9]

Tilvísanir


Fyrirrennari:
Mulatu Teshome
Forseti Eþíópíu
(25. október 2018 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti