Júkatanskagi

Júkatanskagi (spænska: Península de Yucatán) er stór skagi í suðausturhluta Mexíkó og myndar austurmörk Mexíkóflóa. Á skaganum eru mexíkósku fylkin Campeche, Yucatán og Quintana Roo, auk nyrstu hluta Belís og Gvatemala.

Kort sem sýnir Júkatanskaga

Á norðvesturhluta skagans er Chicxulub-gígurinn, sem er leifar eftir 65 milljóna ára gamalt loftsteinshrap sem samkvæmt sumum kenningum var ástæða fyrir fjöldaútdauða risaeðla og annarra tegunda um þetta leyti.

Orðsifjar

Uppruni orðsins „Yucatán“ er umdeildur. Hernán Cortés hélt því fram, í fyrstu bréfum sínum til Karls 5., keisara hins heilaga rómverska ríkis (las Cartas de relación), að nafnið Yucatán hefði komið til vegna misskilnings. Samkvæmt honum spurðu fyrstu spænsku landkönnuðirnir hvað landið væri kallað og svarið var yucatan sem á júkatísku þýðir „ég skil ekki hvað þú segir.“[1][2] Önnur tilgáta segir heitið komið úr máli Asteka, þ.e. yocatlan sem merkir „land ríkidæmis“ eða land kassavarótar (lítið eitrað afbrigði kallað yuca). [3][4]Þriðja kenningin segir að orðið sé dregið af uh yu ka t'ann sem þýði „heyr hvernig þeir tala“ sem Majarnir hafi sagt um Spánverjana. Fleiri kenningar eru til á svipuðum nótum og gætu allt eins verið allar réttar.

Tilvísanir

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.