Luis Buñuel

spænskur-mexíkóskur kvikmyndagerðarmaður (1900-1983)

Luis Buñuel (22. febrúar 190029. júlí 1983) var frægur spænskur kvikmyndagerðarmaður, og af mörgum talinn einhver mikilvægasti leikstjóri kvikmyndasögunnar. Hann starfaði aðallega í Frakklandi og Mexíkó en einnig í heimalandi sínu og Bandaríkjunum.

Luis Buñuel.

Buñuel giftist franskri konu, Jeanne Rucar í París árið 1934, þau voru gift fram á dauðadag Buñuels 1983, tæplega hálfri öld síðar. Þau eignuðust tvo syni Rafael og Juan Luis Buñuel.

Ævi

Luis fæddist í smábænum Calanda í Aragon-fylki í austurhluta Spánar. Hann kom úr sæmilega vel stæðri fjölskyldu. Foreldrar hans voru Leonardo Buñuel og María Portolés. Hann átti tvo bræður; Alfonso og Leonardo og fjórar systur; Alicia, Concepción, Margarita og María. Luis hlaut strangt uppeldi að hætti jesúíta í Colegio del Salvador í Zaragoza, en var síðan rekin úr skóla. Þá hélt hann til Madridar þar sem hann hóf háskólanám í náttúruvísindum og landbúnaðarfræðum. Hann breytti því síðar í verkfræði og loks heimspeki. Á meðal þeirra nemenda sem hann kynntist var málarinn Salvador Dalí og skáldið Federico García Lorca og tókust góð vinasambönd með þeim. Árið 1925 fluttist hann um set og hélt til Parísar og hóf vinnu við samtök sem hétu International Society of Intellectual Cooperation. Þar komst hann í kynni við leikstjórana Jean Epstein sem veitti honum vinnu sem aðstoðarmaður sinn við gerð tveggja kvikmynda; Mauprat (1926) og La Chute de la maison Usher (1928) og Mario Naplas sem réði hann sem aðstoðarleikstjóra við gerð La Sirène des Tropiques (1927).

Kvikmyndaferill

Luis hóf eigin kvikmyndaferil með gerð stuttmyndarinnar Andalúsíuhundurinn (Un chien andalou, 1929), sem hann skrifaði og leikstýrði í samvinnu við vin sinn Salvador Dalí. Myndin er ein sú þekktasta sem kennd er við súrrealisma og nýtur vinsælda enn þann dag í dag. Þeir hófu að skrifa saman kvikmynd í fullri lengd en vegna ósættis þeirra á milli leikstýrði Luis myndinni einsamall. Myndin, sem heitir L'Âge d'or eða Gullöldin, er samansafn óreiðukenndra stuttra frásagna og hlaut mjög blendnar viðtökur. Þegar hún var sýnd í París brást hópur hægrisinnaðra manna, er kenndir voru við föðurlandið, við með því að kasta bleki á sýningartjaldið, ráðast að öðrum sýningargestum og brjóta og eyðileggja listaverk eftir súrrealista sem voru til sýnis í andyri bíósins. Myndin var tekin úr sýningu og var t.a.m. ekki sýnd opinberlega í Bandaríkjunum fyrr en 1979.

Luis sneri aftur til síns heima og leikstýrði eins konar heimildarmynd, Las Hurdes: Tierra Sin Pan (Land án brauðs, 1933), sem sagði frá lífi fátækra bænda í Las Hurdes-sýslu á Norður-Spáni.[1] Myndin var umdeild á Spáni, og var bönnuð í þrjú ár, enda sýndi hún býflugur stinga asna til dauða, en Luis hafði fyrirskipað að hann skyldi þakinn hunangi fyrir tökurnar. Næsta verkefni hans var einnig í formi heimildarmyndar, España 1936 og segir frá tildrögum Spænsku borgarastyrjaldarinnar.

Í Bandaríkjunum

Að Spænsku borgarastyrjöldinni lokinni var Luis gerður útlægur og því fór hann til Bandaríkjanna. Hann settist að í Hollywood þar sem hann fékk fljótt vinnu við að framleiða endurgerðir á myndum sem höfðu verið vinsælar í Bandaríkjunum á öðru tungumáli til útflutnings. Fljótlega var þó fallið frá því að endurgera myndir og þess í stað tekið að talsetja þær. Þá flutti Luis til New York þar sem hann fékk starf við Museum of Modern Art (MOMA) þar sem hann vann m.a. við að klippa útgáfu á heimildarmynd Leni Riefenstahl, Sigur viljans, sem fjallar um Adolf Hitler. Hann var svo rekinn frá MOMA að því að sagt er eftir að Francis Spellman, erkibiskup New York, heimsótti forstöðukonu safnsins, Iris Barry. Luis hélt þá aftur til Hollywood þar sem hann starfaði við talsetningu hjá Warner Brothers-kvikmyndaverinu á árnum 1942-46.

Í Mexíkó

Luis fluttist til Mexíkó árið 1946 og hlaut mexíkóskan borgararétt árið 1949. Þar hóf hann að vinna að eigin kvikmyndum á ný. Fyrsta mynd hans þar í samvinnu við framleiðandann Oscar Dancigers, Gran Casino, leit dagsins ljós sama ár. Buñuel fannst víst ekki mikið til myndarinnar koma sjálfum. Næsta mynd þeirra sem hét El Gran Cavalera með hinum þekkta mexíkóska leikara Fernando Soler kom út 1949 og hlaut góðar viðtökur. Buñuel fullyrti sjálfur að hann hefði lært mikið á tæknilegu hlið þess að vinna kvikmyndir við gerð þeirrar myndar. Í ljósi velgengni myndarinnar veitti Dancigers Buñuel fullkomið frelsi við gerð næstu myndar sinnar. Útkoman varð Los Olvidados (1950), mynd sem sagði sögu barna í fátækrahverfum Mexíkóborgar. Myndin fékk verðlaun sem besta myndin á Cannes-kvikmyndahátíðinni og Buñuel fékk verðlaun fyrir bestu leikstjórn. Fyrir vikið varð Buñuel heimsþekktur, nú var nýr meistari kominn fram á sjónarsviðið. Árið 2003 var upprunalegt eintak filmu myndarinnar samþykkt sem hluti af Minni heimsins-verkefninu (e. Memory of the World Program) á vegum UNESCO.[2]

Buñuel leikstýrði alls 21 mynd í Mexíkó á næstu 16 árum. Meðal þeirra voru:

  • Él (1953)
  • Ensayo de un crimen (1955)
  • Nazarín (1959) (byggð á skáldsögu spænska rithöfundarins Benito Pérez Galdós, og yfirfærð yfir á Mexíkó af Buñuel)
  • Viridiana (1961) (samstarfsverkefni milli mexkóskra og spænskra aðila, vann verðlaun á Cannes)
  • El Ángel Exterminador (1962)
  • Simón del desierto (1965)

Árið 1960 bauð Franco, einræðisherra Spánar, Buñuel að koma aftur til síns heima og búa til kvikmynd. Ástæðan var sú að Franco vildi milda ímynd sína og virðast menningalega þenkjandi. Útkoman varð kvikmyndin Viridiana, mynd sem segir sögu réttsýnnar konu sem fyrir sakir örlaganna brotnar undan ranglæti heimsins. Í myndinni kemur fram, að margir telja, dulin gagnrýni á kirkjuna. Í það minnsta fordæmdi Vatíkanið myndina, hún var bönnuð í mörg ár á Spáni og ekki var Franco skemmt.

Í Frakklandi

Á sjötta áratuginum fluttist Buñuel til Frakklands. Þar hóf hann samstarf við framleiðandann Serge Silberman og rithöfundinn Jean-Claude Carrière og saman gerðu þeir með vinsælli og þekktustu myndirnar á ferli hans. Le Journal d'une femme de chambre (1964), útfærslu á skáldsögu eftir Octave Mirbeau, Belle de Jour (1967) og Cet obscur objet du désir (1977). Sú síðastnefnda var síðasta mynd Buñuels en þá var hann orðinn 77 ára gamall og næsta heyrnarlaus. Þá skrifaði hann sjálfsævisöguna Mon Dernier Soupir (1982) saman með Carrière, sem hafði unnið með honum í rúman áratug.

Luis Buñuel lést af völdum skorpulifurs í Mexíkóborg þann 29. júlí 1983.

Kvikmyndaskrá

Í fullri lengd

ÁrÍslenskur titillUpprunalegur titill
1930Gullöldin[3]L'Âge d'Or
1936España 1936
1946Gran Casino
1949Ófétið[3]El Gran Calavera
1950Þeir gleymdu[3]Los olvidados
1951Susana
1951La hija del engaño
1952Subida al cielo
1952Una mujer sin amor
1953El bruto
1953El
1954La ilusión viaja en tranvía
1954Wuthering Heights
1954Robinson Krúsó
1955Ensayo de un crimen
1955El río y la muerte
1955Cela s'appelle l'aurore
1956La mort en ce jardin
1959Nazarín
1959La fièvre monte à El Pao
1960Hin unga[4]The Young One
1961Viridiana
1962Engill útrýmingarinnar[3]El ángel exterminador
1964Dagbók þernu[4]Le journal d'une femme de chambre
1967Daglilja eða Snót dagsins[4]Belle de jour
1969Vetrarbrautin okkar[4]La Voie Lactée
1970Tristana
1972Háttvísir broddborgarar eða

Dulinn sjarmi millistéttarinnar[3]

Le charme discret de la bourgeoisie
1974Frelsisvofan[4]Le fantôme de la liberté
1977Þráin eftir hinu óræða[3] eða Torræður hlutur löngunnar[4]Cet obscur objet du désir

Stuttmyndir

  • Andalúsíuhundurinn[3] (sp. Un chien andalou) (1929)
  • Land án brauðs[3] (sp. Las Hurdes) (1933) (heimildarmynd)
  • Símon úr eyðimörkinni[3] (sp. Simón del desierto) (1965)

Tilvísanir

Heimild

Tenglar

Erlendir tenglar

🔥 Top keywords: ForsíðaKerfissíða:Nýlegar breytingarKerfissíða:LeitCarles PuigdemontLandsbankinnForsetakosningar á Íslandi 2024Listi yfir íslensk póstnúmerHalla Hrund LogadóttirMarie AntoinetteFiann PaulListi yfir skammstafanir í íslenskuÍslandsbankiListi yfir íslensk eiginnöfn karlmannaSeinni heimsstyrjöldinListi yfir íslensk eiginnöfn kvenmannaSumardagurinn fyrstiListi yfir íslensk mannanöfnÍslandIsland.isBaldur ÞórhallssonBørsenJón GnarrAlþingiHalla TómasdóttirForsetakosningar á Íslandi 2016Alþingiskosningar 2021Hjálp:EfnisyfirlitBjarni Benediktsson (f. 1970)Wikipedia:Um verkefniðKatrín JakobsdóttirÓlafur Ragnar GrímssonHáskóli ÍslandsBrúðkaupsafmæliForseti ÍslandsVigdís FinnbogadóttirGylfi Þór SigurðssonÓlafur Darri ÓlafssonReykjavíkWikipedia:Samfélagsgátt