Mahabarata

Mahabarata (sanskrít: महाभारत Mahābhāratam; [/maɦaːbʱaːrət̪ə/]) er annað af stóru hetjuljóðunum tveimur á sanskrít í sögu Forn-Indlands. Hitt nefnist Rāmāyaṇa.[1] Í Mahabarata segir frá átökum tveggja skyldmennahópa í Kurukshetra-stríðinu, Kaurava og Pandava og afkomenda þeirra.

Blaðsíða úr bókinni.

Sagnakvæðið inniheldur líka mikið af heimspekilegum og trúarlegum vangaveltum, eins og hugtakið Puruṣārtha eða „lífsmarkmiðin fjögur“. Helstu sögurnar í kvæðinu eru Bhagavad Gita, sagan um Damajanti, sagan um Sakúntala, sagan um Pururava og Úrvasí, sagan um Savitri og Satjavan, sagan um Katja og Devajani, sagan um Risjasringa og styttri útgáfa af Ramajana. Þessar sögur eru oft þýddar og gefnar út sérstaklega sem sjálfstæð verk.

Hefðbundinn höfundur Mahabarata er kallaður Vyasa, en talið er að megnið af sagnabálknum hafi verið tekið saman frá 3. öld f.o.t. til 3. aldar e.o.t., og að elstu hlutar hans séu ekki eldri en frá 4. öld f.o.t.[2][3] Textinn komst líklega á endanlegt form á tímum Guptaveldisins á 4. öld.[4][5]

Mahabarata er lengsta sagnkvæði sem vitað er um og hefur verið nefnt „lengsta kvæði sem samið hefur verið“.[6][7] Lengstu útgáfur þess innihalda 100.000 slokur eða meira en 200.000 ljóðlínur, auk langra kafla í óbundnu máli. Mahabarata telur um 1,8 milljón orð og er um það bil tíu sinnum lengra en Ilíonskviða og Ódysseifskviða samanlagt, og um fjórum sinnum lengra en Ramajana.[8][9] Vegna menningarlegs mikilvægis hefur kvæðinu verið líkt við Biblíuna, Kóraninn, verk Hómers og forngrísku leikskáldanna, og jafnvel verk William Shakespeare.[10] Á Indlandi er Mahabarata stundum kallað „fimmta Vedan“.[11]

Tilvísanir

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.