Oliver Bierhoff

Oliver Bierhoff (1. maí 1968 í Karlsruhe) er þýskur knattspyrnumaður og markaskorari. Hann spilaði 70 landsleiki fyrir Þýskaland og skoraði alls 37 mörk. Hann er fyrsti knattspyrnumaðurinn sem skoraði „gullna markið“ í framlengingu á stórmóti.

Oliver Bierhoff, 2011

Leikferill

Oliver Bierhoff fæddist í Karlsruhe en fluttist á unga aldri til Essen. Fimm ára byrjaði hann að æfa með Essener SG 99/06 en 1978 skipti svo yfir í unglingalið Schwarz-Weiss Essen. Þar spilaði hann saman með Jens Lehmann, sem seinna varð landsliðsmarkvörður. Árið 1985 flutti Bierhoff til Krefeld og spilaði með unglingaliði Bayer Uerdingen. Ári síðar komst hann í aðalliðið, en náði sér ekki sem skildi sem sóknarmaður. Hann spilaði næstu árin með ýmsum félögum, svo sem HSV, Borussia Mönchengladbach og Austria Salzburg en það var ekki fyrr en á Ítalíu sem hann sló í gegn. Árið 1991 spilaði hann með Ascoli og skoraði 48 mörk á fjórum leiktíðum. 1995 skipti hann yfir í Udinese Calcio. Á þremur árum skoraði hann 57 mörk og varð eftirsótt stjarna. Ári síðar var hann svo valin í þýska landsliðið og spilaði sinn fyrsta leik gegn Portúgal í febrúar 1996 (sem Þjóðverjar unnu 2:1). Það ár tók hann þátt í sínu fyrsta stórmóti, EM 1996 í Englandi. Í úrslitaleiknum gegn Tékklandi afrekaði hann það að skora fyrsta „gullmarkið“ (Golden Goal) og varð þar með Evrópumeistari. Það var eini meistaratitillinn sem Bierhoff hlaut á ferli sínum. 1998 var hann keyptur til AC Milan og spilaði þar í þrjú ár. Eftir fyrsta árið sitt þar var hann kjörinn knattspyrnumaður ársins í Þýskalandi. Á EM í Hollandi og Belgíu árið 2000 var hann fyrirliði þýska landsliðsins. Eftir það reyndi hann fyrir sér í Frakklandi og lék eitt tímabil með AS Monaco, en sneri aftur til Ítalíu 2002, þar sem hann lék sína síðustu leiktíð fyrir Chievo Verona. Eftir að hafa lagt skóna á hilluna var Bierhoff til skamms tíma knattspyrnuþulur í sjónvarpi. 2004 var hann ráðinn sem framkvæmdastjóri þýska landsliðsins og starfaði sem slíkur í þjálfaratíð Jürgen Klinsmann og Joachim Löw (Jogi Löw).

Félög Bierhoffs

FélagÁrLeikirMörk
Bayer Uerdingen1986-1988314
Hamburger SV1988-1990346
Borussia Mönchengladbach199080
Austria Salzburg1990-19913223
Ascoli1991-199511748
Udinese1995-19988657
AC Milan1998-20019138
AS Monaco2001-2002185
Chievo Verona2002-2003267

Stórmót Bierhoffs

MótStaðurÁrangur
EM 1996EnglandMeistari
HM 1998Frakkland8 liða úrslit
EM 2000Holland / BelgíaRiðlakeppni
HM 2002Suður-Kórea / Japan2. sæti

Annað markvert

  • Oliver Bierhoff er með gráðu í viðskiptafræðum frá Háskólanum í Hagen.
  • 22. júní 2001 kvæntist Bierhoff Clöru Szalantzy. Þau eiga eina dóttur.

Heimildir