Palaú

Palaú (palaúíska: Beluu er a Belau) er eyríki í Kyrrahafi, um 500 km austan við Filippseyjar. Palaú er hluti af Míkrónesíu og nær yfir um 250 eyjar sem mynda vesturhluta Karlseyja. Fjölmennasta eyjan er Koror en höfuðborgin, Ngerulmud, er á eyjunni Babeldaob. Landhelgi eyjanna liggur að landhelgi Indónesíu, Filippseyja og Míkrónesíu.

Palaú
Beluu er a Belau
Fáni PalaúSkjaldarmerki Palaú
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Belau rekid
Staðsetning Palaú
HöfuðborgNgerulmud
Opinbert tungumálenska, palaúíska
StjórnarfarLýðveldi

ForsetiSurangel Whipps Jr.
Sjálfstæði
 • Stofnun lýðveldis1. janúar 1981 
 • Samningur um frjálst samband við Bandaríkin1. október, 1994 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
179. sæti
459 km²
~0
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar
224. sæti
17.907
46,7/km²
VLF (KMJ)áætl. 2018
 • Samtals0,3 millj. dala (192. sæti)
 • Á mann16.296 dalir (81. sæti)
VÞL (2019) 0.826 (50. sæti)
Gjaldmiðillbandaríkjadalur
TímabeltiUTC+9
Þjóðarlén.pw
Landsnúmer+680

Fólk frá Filippseyjum tók að setjast að á eyjunum fyrir um 3000 árum. Evrópumenn komu þangað fyrst á 18. öld. Eyjarnar voru hluti af Spænsku Austur-Indíum til 1885. Eftir ósigur Spánar í stríði Spánar og Bandaríkjanna 1898 seldu Spánverjar þær til Þýskalands þar sem þær urðu hluti af Þýsku Nýju-Gíneu. Japanir lögðu eyjarnar undir sig í fyrri heimsstyrjöld. Í síðari heimsstyrjöld lögðu Bandaríkjamenn þær undir sig. Eyjarnar voru síðan í umsjá Bandaríkjanna til ársins 1994 þegar þær fengu sjálfstæði í frjálsu sambandi við Bandaríkin.

Efnahagur Palaú byggist aðallega á ferðaþjónustu, sjálfsþurftarbúskap og fiskveiðum. Ríkið er mjög háð fjárhagsaðstoð frá Bandaríkjunum. Bandaríkjadalur er opinber gjaldmiðill eyjanna. Flestir íbúa eru Míkrónesar, Melanesar eða Ástrónesar, en stórir hópar af filippeyskum og japönskum uppruna búa einnig á eyjunum. Enska og palaúíska (sunda-súlavesímál) eru opinber tungumál en japanska, sonsorolíska og tobíska eru opinberlega viðurkennd sem staðbundin tungumál.

Stjórnmál

Palaú er lýðveldi þar sem forseti Palaú er bæði þjóðhöfðingi og stjórnarleiðtogi. Ríkisstjórnin fer með framkvæmdavald, en löggjafarvaldið skiptist milli ríkisstjórnarinnar og þjóðþings Palaú. Dómsvaldið er aðskilið frá framkvæmda- og löggjafarvaldi. Stjórnarskrá Palaú er frá 1981.

Ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Palaú gerðu með sér samkomulag um frjálsa aðild árið 1986, svipað þeim sem Bandaríkin gerðu við Míkrónesíu og Marshall-eyjar. Samkomulagið gekk í gildi árið 1994 og við það hætti Palaú að vera verndarríki og varð að fullu sjálfstætt, síðast landa innan Verndarsvæðis í Kyrrahafi í kjölfar Ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 956.

Samkomulagið kveður á um frjáls samskipti ríkjanna með áherslu á stjórnarfar, efnahagslíf, öryggis- og varnarmál. Palaú er ekki með eigin her og Bandaríkjaher sér um varnir landsins. Samkvæmt samkomulaginu hefur Bandaríkjaher leyfi til dvalar á Palaú í 50 ár. Þar er lítil verkfræðingasveit á vegum Bandaríkjaflota og strandgæslan er á vegum Bandarísku strandgæslunnar.

Stjórnsýslueiningar

Sextán fylki Palaú.

Palaú skiptist í sextán fylki (sveitarfélög til 1984):

FylkiStærð (km2)Íbúar skv. áætlun 2012Manntal 13. apríl 2015Athugasemdir
Kayangel1,77654Eyjarnar sem mynda Kayangel-hringrifið.
Ngarchelong11,2281316Norðan megin á Babeldaob.
Ngaraard34453413Norðan megin á Babeldaob, sunnan við Ngarchelong.
Ngardmau34195185Vestan megin á Babeldaob.
Ngaremlengui68310350Vestan megin á Babeldaob.
Ngatpang33257282Vestan megin á Babeldaob.
Ngiwal17226282Austan megin á Babeldaob.
Melekeok26300277Austan megin á Babeldaob.
Ngchesar43287291Austan megin á Babeldaob.
Aimeliik44281334Suðvestan megin á Babeldaob.
Airai592.5372.455Suðaustan megin á Babeldaob.
Koror60,5211.67011.444Koror, Ngerekebesang og Malakal, auk Chelbacheb og Eil Malk í suðvestri.
Peleliu22,3510484Nær yfir Peleliu og nokkrar smáeyjar norðan við hana, þar á meðal Ngercheu.
Angaur8,06130119Angaur, 12 km sunnan við Peleliu.
Sonsorol3,14240Nær yfir Sonsorol, Fanna, Pulo Anna og Merir.
Hatohobei0.91025Nær yfir Tobi og Helenurif (óbyggt).
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.