Ger

Ger er vaxtarform heilkjarna örvera sem flokkaðar eru sem hluti af svepparíkinu. Um 1.500 tegundir eru þekktar, sem er um 1% af þekktum sveppategundum.[1][2][3] Ger er helsta sveppategundin sem lifir í sjónum.

Ger
Ölger (Saccharomyces cerevisiae).
Ölger (Saccharomyces cerevisiae).
Vísindaleg flokkun
Veldi:Heilkjörnungar (Eukaryota)
Ríki:Sveppir (Fungi)
Algengar skiptingar

Asksveppir

  • Gersveppaundirfylking (Saccharomycotina)
  • Vendilsundirfylking (Taphrinomycotina)
    • Schizosaccharomycetes

Kólfsveppir

  • Kempuundirfylking (Agaricomycotina)
    • Tremellomycetes
  • Pússryðsundirfylking (Pucciniomycotina)
    • Fjólusótsveppsflokkur (Microbotryomycetes)

Ger er einfrumungur sem hefur þróast frá fjölfruma forfeðrum.[4] Sumar tegundir myndi þræði tengdra knappskota sem eru kallaðir hálfsveppþræðir eða falskir sveppþræðir.[5] Stærð gers er mjög fjölbreytt og ræðst bæði af tegund og umhverfi. Það er oftast 3-4 µm í þvermál, en getur orðið allt að 40 µm.[6] Flest ger fjölga sér kynlaust með mítósu, og mörg þeirra gera það með knappskotum. Hægt er að bera ger saman við myglu sem myndar sveppþræði. Sveppir sem geta myndað bæði þessi vaxtarform (eftir hitastigi eða öðrum aðstæðum) eru sagðir vera tvíbreytnir.

Ölger af tegundinni Saccaromyces cerevisiae hefur verið notað í bakstri og til að framleiða áfengi í þúsundir ára.[7] Það er líka mjög mikilvæg rannsóknartegund í rannsóknum á frumulíffræði.[8] Hvítger (Candida albicans) er tækifærismeinvaldur sem getur valdið sýkingu hjá mönnum. Gerðar hafa verið tilraunir til að nota ger við framleiðslu rafmagns í örveruefnarafli.[9]

Ger myndar hvorki flokkunarfræðilegan né þróunarfræðilegan flokk. Orðið „ger“ er oft notað sem almennt heiti á S. cerevisiae. Sveppir sem teljast til gera koma úr tveimur aðskildum fylkingum annars vegar asksveppa og hins vegar kólfsveppa. Sveppir úr gerabálki (Saccaromycetales) eru kallaðir „eiginlegt ger“.[10]

Tilvísanir

  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.