Melania Trump

Slóvensk-bandarísk fyrirsæta og forsetafrú

Melania Trump (áður Melanija Knavs; fædd 26. apríl 1970) er slóvensk fyrrverandi fyrirsæta og þriðja eiginkona 45. forseta Bandaríkjanna, Donald J. Trump[1].

Melania Trump
Forsetafrú Bandaríkjanna
Í embætti
20. janúar 2017 – 20. janúar 2021
Persónulegar upplýsingar
Fædd26. apríl 1970 (1970-04-26) (54 ára)
Novo Mesto, Júgóslavíu (nú Slóveníu)
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiDonald Trump (g. 2005)
BörnBarron Trump
StarfForsetafrú
Undirskrift

Melania er fædd í slóvensku borginni Novo Mesto(en) í suð-austurhluta landsins. Hún ólst upp í smábænum Sevnica, í þáverandi Júgóslavíu[2]. Hún starfaði sem fyrirsæta gegnum umboðskrifstofur í Mílanó og París, áður en hún fluttist til New York árið 1996[3]. Hún hefur meðal annars verið á skrá hjá Irene Marie Models og Trump Model Management[4].

Hún hlaut landvistarleyfi í Bandaríkjunum árið 2001[5]. Hún giftist auðjöfrinum Donald Trump í janúar 2005. Þau hjónin eignuðust soninn Barron í mars ári seinna. Þá hlaut Melania bandarískan ríkisborgarrétt í júlí 2006[6].

Melania er önnur bandaríska forsetafrúin sem fædd er utan Bandaríkjanna (að frátöldum þeim sem fæddar eru á því svæði sem í dag kallast Bandaríkin, fyrir stofnun Bandaríkjanna[7]), sú fyrsta sem fer í gegnum umsóknarferli bandarísks ríkisborgararéttar[8] og sú fyrsta sem talar annað mál en ensku sem fyrsta mál[9].

Uppvaxtarár

Melanija Knavs fæddist í Novo Mesto í Slóveníu, þáverandi sambandslýðveldi Júgóslavíu, þann 26. apríl 1970[10][11]. Foreldrar hennar eru Viktor Knavs (fæddur 24. mars 1944), bílasali frá smábænum Radeče[12][13]. Móðir hennar Amalija (fædd Ulčnik, 9, júlí 1945), kom frá smábænum Raka og starfaði sem textílhönnuður fyrir barnafatnaðarframleiðandann Jutranijka í bænum Sevnica, við Króatísku landamærin[14][15]. Fyrirsætuferill Melaniu hófst snemma, en strax í barnæsku tók hún þátt í tískusýningum á vegum Jutranijka, ásamt öðrum börnum starfsmanna fyrirtækisins[16].

Melania á tvö systkini, eldri systurina Ines, sem hún er í góðu sambandi við[17], auk samfeðra eldri hálf-bróður sem hún hefur að sögn aldrei hitt[18][19].

Melania ólst upp í fábrotinni blokkaríbúð í Sevnica. Faðir hennar, Viktor Knavs, var meðlimur í Kommúnistaflokk Slóveníu, þar sem trúleysi var reglan[20]. Þó lét hann skíra dætur sínar til kaþólsku með leynd, eins og tíðkaðist gjarnan meðal flokksmeðlima. Þegar Trump-hjónin hittu Frans Páfa í Vatíkaninu 2017 á Melania að hafa beðið hann að blessa talnabandið sitt[21].

Á unglingsárum bjó Melania ásamt fjölskyldu sinni í tvíbýli í Sevnica[22]. Hún fluttist síðar til Ljubljana til þess að fara í framhaldsnám, sem hún þó kláraði ekki[23].

Ferill

Melania hóf fyrirsætuferilinn fimm ára gömul og sat fyrir í auglýsingum frá sextán ára aldri, fyrst þegar hún sat fyrir hjá slóvenska tískuljósmyndaranum Stane Jerko[24]. Samhliða því hætti hún að nota slóvenska nafnmið „Knavs“ og tók upp þýskan rithátt af sama nafni; „Knauss“[25]. Átján ára gömul fékk hún samning við umboðsskrifstofu í Mílanó á Ítalíu[26]. Árið 1992 var hún í öðru sæti í Jana Magazine, í keppni um titilinn Útlit ársins[27]. Hún lagði stund á arkítektúr í eitt ár áður en hún hætti námi[28]. Í framhaldinu sat Melania fyrir hjá tískuhúsum í Mílanó og París. Árið 1995 hitti hún meðeiganda Metropolitan Models skrifstofunnar Paolo Zampolli, sem var vinur Donalds Trumps, mannsins sem hún átti eftir að giftast. Paolo var á ferð um Evrópu í leit að nýjum fyrirsætum. Hann hvatti Melaniu eindregið til að fara til Bandaríkjanna og bauðst til að fara með umboð fyrir hana þar[29].

Árið 1996 flutti Melania til Manhattan í New York[30]. Paolo fann handa henni íbúð í Zeckendorf Towers á Union Square, sem hún deildi með ljósmyndaranum Matthew Atanian[31]. Árið 1996 sat húm fyrir, ásamt annari fyrirsætu, í kynferðislega ögrandi myndaþætti í janúarhefti franska karlablaðsins Max[32]. Árið 2000 sat hún einnig nakin fyrir í janúarhefti bresku útgáfu karlablaðsins GQ, íklædd aðeins feldi og demöntum, í Boeing 727 einkaþotu Donalds Trumps[33]. Myndirnar komust í kastljós fjölmiðla skömmu eftir forsetakosningarnar 2016, en Donald Trump varði Melaniu opinberlega og sagði meðal annars að myndir af þessu tagi væru mjög algengar í Evrópu[34].

Árið 2010 setti Melania skartgripalínu á markað, sem hún kallaði Melania Timepieces and Jewelry, sem seld var á kapalstöðinni QVC[35]. Þá sendi hún einnig frá sér húðlínu, Melania Marks Skin Care Collection sem seld var í lausasölu í dýrum merkjaverslunum[36]. Samkvæmt opinberum gögnum frá 2010 hagnaðist hún um meira en 15.000 bandaríkjadali á viðskiptum það árið, en þá er talið að upphæðin hafi náð allt að 50.000 dölum[37]. Haft var eftir framleiðendum árið 2017 að þeir hafi slitið öllum viðskiptasamningum við hana, en mikið fjölmiðlafár upphófst í kringum þennan rekstur verðandi forsetafrúarinnar, um það leyti sem Trump var kosinn. Daginn sem Trump tók við embætti forseta voru fyrirtæki hennar og varningur auglýst inni á vef Hvíta hússins, en upplýsingarnar fjarlægðar skömmu síðar[38]. Haft var eftir talsmanni Hvíta hússins að fyrirtækin væru ekki lengur starfandi og að „forsetafrúin hefði ekki í hyggju að misnota stöðu sína í hagnaðarskyni og ætlaði ekki að gera slíkt“[39].

Helstu átakamál

Forsetatíð Donalds Trumps var af mörgum talin einkennast af átökum sem bendla má við menningarstríð[40][41]og Melania Trump fór ekki varhluta af athyglinni og gagnrýninni sem því fylgdi.

„The Melania-Tapes“

Sumarið 2018 var forsetafrúin leynilega hljóðrituð af fyrrverandi vinkonu og samstarfskonu sinni Stephanie Winston Wolkoff. Þar lét hún í ljós gremju yfir linnulausri gagnrýni sem hún hafði sætt í fjölmiðlum, vegna stefnu eiginmannsins í innflytjendamálum. Donald Trump hafði látið skilja að fjölskyldur flóttafólks á Mexíkósku landamærunum. Vöktu aðfarirnar heimsathygli fyrir að vera ómannúðlegar og óvenjulega harðar í vestrænu ríki, auk þess að vera brot á barnasáttmálanum. Á meðan á því gekk hafði Melania sinnt skyldum sínum í Hvíta húsinu, svo sem jólaskreytingum.

Meðal þess sem fram kom á upptökum Wolkoff eru eftirfarandi ummæli: „Þau segja að ég sé samsek, að ég sé eins og hann. Ég styðji hann og ég segi ekki nóg, ég geri ekki nóg í minni stöðu“[42].

Játningar Stephanie Wolkoff

Fyrrnefnd Stephanie Wolkoff gaf út bók um samband sitt við forsetafrúna þar sem hún lýsti samskiptum þeirra í smáatriðum og fór ítarlega í saumana á ringulreiðinni sem ríkti í Hvíta húsinu þegar Trump tók við völdum. Jafnframt segir hún forsetahjónin hafa svikið sig, rænt sig mannorðinu og haft af sér fjárhæðir í formi vangoldinna launa[43].

Nektarmyndir

Meðal þess sem hún var harðlega gagnrýnd fyrir eru nektarmyndir sem The New York Post birti á forsíðu sinni í júlí 2016[44]. Þá hlaut hún harða gagnrýni fyrir baráttu sína gegn neteinelti[45], en eiginmaður hennar þótti með afburðum ágengur og óvæginn við andstæðinga sína á samfélagsmiðlum. Deginum áður en Melania Trump kynnti átak sitt gegn neteinelti réðst Donald Trump til atlögu gegn umhverfisaktivistanum Gretu Thunberg, hæddi hana opinberlega á samfélagsmiðlareikningi sínum, og fann henni meðal annars til vansa að vera á einhverfurófi[46]. Karen Tumulty, blaðamaður hjá The Washington Post gekk svo langt að segja að framganga Melaniu væri hræsin og óverjandi[47].

Búseta

Melania Trump var einnig gagnrýnd fyrir þá ákvörðun að flytja ekki beint til Washington þegar Donald Trump tók við embætti, heldur dvelja áfram svo vikum skipti, að heimili sínu í New York með syninum Barron Trump[48]. Gagnrýnin sneri helst að því að öryggisgæsla vegna ákvörðunarinnar var talin nema 130.000 - 150.000 bandaríkjadölum á dag, samkvæmt fréttamiðlinum Business Insider[49], og þá var frátalinn kostnaður vegna flugferða milli Washington og New York. Þótti gagnrýnendum hennar þetta slæm meðferð á skattfé.

Fatnaður

Forsetafrúin hefur oft verið harðlega gagnrýnd fyrir klæðaburð sinn og hefur umræðan yfirleitt snúist á þann veg að hún sé taktlaus og úr tengslum við líf venjulegs fólks. Tveir af jökkum Melaniu hafa vakið sérstaklega mikla athygli og reiði meðal almennings. Má þar nefna Dolce & Gabbana jakka sem hún klæddist á leiðinni á G-7 leiðtogafund á Ítalíu. Jakkinn kostaði um 60.000 bandaríkjadali sem þótti óboðlega há upphæð, enda er virði jakkans meira en árslaun venjulegs bandarísks verkamanns[50].

Þá uppskar forsetafrúin litlar vinsældir í júní 2018, þegar hún fór að hitta fangelsuð börn á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Hún klæddist grænum jakka sem á stóð „I really don't care, do u?“ sem á íslensku útleggst: „Mér er í alvöru sama, en þér?“[51].

Staðgengla-samsærið

Þá hafa samsæriskenningar flogið um netheima þess efnis að Melania sé með leikkonur í vinnu fyrir sig, tvífara, sem mæti hennar í stað á opinbera viðburði og athafnir. Camille Caldera hjá USA Today telur sig hafa afsannað kenninguna[52] sem lifir þó enn góðu lífi á öldum rafrænna ljósvaka[53] og ekki síst undir myllumerkinu #fakemelania.

Handasnertingar forsetahjónanna

Þá eru ótal myndbönd í umferð sem sýna Melaniu færast undan þegar Donald Trump reynir að halda í hönd hennar við opinber tilefni og hafa kennismiðir notað myndböndin sem rök fyrir þeirri hugmynd að Melaniu líki illa við eiginmanninn[54][55].

Tilvísanir


Fyrirrennari:
Michelle Obama
Forsetafrú Bandaríkjanna
(20. janúar 2017 – 20. janúar 2021)
Eftirmaður:
Jill Biden