Norður-Kýpur

35°10′00″N 33°30′00″A / 35.16667°N 33.50000°A / 35.16667; 33.50000

Kuzey Kıbrıs Türk Cumhuriyeti
Fáni Norður-KýpurSkjaldarmerki Norður-Kýpur
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
İstiklal Marşı
Staðsetning Norður-Kýpur
HöfuðborgNorður-Nikósía
Opinbert tungumálTyrkneska
StjórnarfarLýðveldi

ForsetiErsin Tatar
ForsætisráðherraFaiz Sucuoğlu
Sjálfstæðifrá Kýpur
 • Innrás Tyrkja á Kýpur20. júlí 1974 
 • Tyrkneska sambandslýðveldið á Kýpur13. október 1975 
 • Sjálfstæði15. nóvember 1983 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

3.355 km²
2,7
Mannfjöldi
 • Samtals (2017)
 • Þéttleiki byggðar

326.000
93/km²
Gjaldmiðilltyrknesk líra (TRY)
TímabeltiUTC+2 (+3 á sumrin)
Þjóðarlén.nc.tr
Landsnúmer++90 392

Norður-Kýpur (tyrkneska: Kuzey Kıbrıs eða Kuzey Kıbrıs Türk Cumhuriyeti), formlega Tyrkneska lýðveldið á Norður-Kýpur, er de facto ríki á norðausturhluta eyjunnar Kýpur í Miðjarðarhafi. Stofnun þess var lýst yfir 1983, níu árum eftir valdarán gríska hersins á eyjunni og innrás Tyrkja í norðurhluta hennar. Lýðveldið nýtur einungis viðurkenningar Tyrklands á alþjóðavettvangi en öll önnur ríki sem og Sameinuðu þjóðirnar viðurkenna einungis Lýðveldið Kýpur á suðurhlutanum og líta svo á að það ráði (lögformlega) yfir allri eyjunni. Formlega séð er eyjan öll hluti Evrópusambandsins en norðurhlutinn er undanþeginn lögum sambandsins þangað til sátt næst í deilunni.

Norður-Kýpur nær frá Karpassskaga í austri að Morfúflóa og Kormakitishöfða. Vestasti hluti þess er útlendan Kokkina. Varnarbelti undir stjórn Sameinuðu þjóðanna skilur Norður-Kýpur frá Kýpur og klýfur borgina Nikósíu (sem er höfuðborg beggja hluta) í tvennt.

Innrás Tyrkja á Kýpur var gerð í kjölfar valdaráns kýpverska þjóðvarðarins með stuðningi grísku herforingjastjórnarinnar með það markmið að innlima Kýpur í Grikkland. Innrásin leiddi til skiptingar eyjarinnar og fjöldaflótta grískumælandi Kýpverja frá norðurhlutanum og tyrkneskumælandi Kýpverja frá suðurhlutanum. Stjórnin í norðurhlutanum lýsti einhliða yfir sjálfstæði árið 1983. Norður-Kýpur er mjög háð Tyrklandi um pólitískan, efnahagslegan og hernaðarlegan stuðning.[1][2][3] Allar tilraunir til að leysa Kýpurdeiluna hafa hingað til reynst árangurslausar. Tyrklandsher hefur stórt lið á Norður-Kýpur með samþykki stjórnarinnar þar. Stjórn Kýpur, Evrópusambandið og stærstur hluti alþjóðasamfélagsins, lítur formlega á það sem ólöglegt innrásarlið.

Stjórnkerfi Norður-Kýpur er forsetaþingræði með blandaðan menningararf og efnahagslíf þar sem þjónustugeirinn er ríkjandi. Hagvöxtur hefur verið í landinu eftir aldamótin 2000, en efnahagsþvinganir og hafnbönn hamla honum. Opinbert tungumál er tyrkneska og kýpurtyrkneska er sú mállýska sem flestir tala. Mikill meirihluti íbúa eru súnnítar, en afstaða til trúarinnar er að mestu hófsöm og samfélagslegar áherslur veraldlegar.[4] Norður-Kýpur er áheyrnarríki í Efnahagssamvinnustofnuninni og Samtökum um íslamska samvinnu sem „samfélag Kýpur-Tyrkja“.

Landfræði

Útsýni yfir Güzelyurt-umdæmi og Morfúflóa séð frá Troódosfjöllum.

Norður-Kýpur er 3.355 km2 að stærð, eða um þriðjungur eyjunnar. Strönd Tyrklands er 75 km norðan við Norður-Kýpur og strönd Sýrlands 97 km í austur. Norður-Kýpur er milli 34. og 36. breiddargráðu norður og 32. og 35. lengdargráðu austur.

Tveir flóar skerast inn í strönd Norður-Kýpur: Morfúflói og Famagústaflói. Þar eru líka fjórir höfðar: Apostolos Andreas-höfði, Kormakitishöfði, Zeytin-höfði og Kasahöfði. Apostolos Andreas-höfði er endinn á Karpasskaga. Kýreníufjöll eru mjór fjallgarður á norðurströndinni. Þar er hæsti tindur Norður-Kýpur, Selvilifjall, 1.024 metrar á hæð.[5] Sléttan Mesaoria sem nær frá Güzelyurt-umdæmi að austurströndinni er annar einkennandi landslagsþáttur. Austurhluti sléttunnar er þurrt ræktarland þar sem ræktað er hveiti og bygg. Þessi hluti er því grænn á veturna og vorin en verður gulbrúnn á sumrin.[6]

56,7% af landi Norður-Kýpur er ræktanlegt land.[7]

Stjórnmál

Ersin Tatar er núverandi forseti Norður-Kýpur.

Stjórnkerfið á Norður-Kýpur er fulltrúalýðræði með fjölflokkakerfi og forsetaþingræði þar sem forsetinn er þjóðhöfðingi og forsætisráðherra er stjórnarleiðtogi. Ríkisstjórnin fer með framkvæmdavaldið en Þing Norður-Kýpur fer með löggjafarvaldið. Dómskerfið er sjálfstætt og fer með dómsvaldið.

Forsetinn er kosinn til fimm ára í senn. Núverandi forseti er Ersin Tatar. Þingmenn eru 50 talsins kosnir í sex kjördæmum með hlutfallskosningu. Í síðustu kosningum árið 2018 hlaut Einingarflokkur þjóðarinnar meirihluta þingsæta. Núverandi ríkisstjórn er samsteypustjórn Einingarflokksins og miðjuflokksins Alþýðuflokksins.

Vegna þess hve landið er háð stuðningi frá Tyrklandi hefur stjórn Tyrklands mikil áhrif á stjórnmál á Norður-Kýpur. Vegna þessa hafa sumir gengið svo langt að segja að Norður-Kýpur sé leppríki Tyrklands.[8][9][10] Aðrir benda á deilur milli ríkisstjórna landanna sem gefa til kynna að ekki sé rétt að kalla Norður-Kýpur „leppríki“.[11][12]

Stjórnsýslueiningar

Norður-Kýpur skiptist í sex umdæmi: Lefkoşa, Gazimağusa, Girne, Güzelyurt, İskele og Lefke. Umdæmin skiptast svo í 28 undirumdæmi. Lefke var stofnað árið 2016 með því að kljúfa það frá Güzelyurt.[13]

Lefkoşa
Girne
İskele
Güzelyurt
Lefke
Gazimağusa

Tilvísanir

Tenglar

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.