Denis Mukwege

Kongóskur kvensjúkdómalæknir og Nóbelsverðlaunahafi

Denis Mukengere Mukwege (f. 1. mars 1955) er kongóskur kvensjúkdómalæknir. Hann stofnaði og vinnur hjá Panzi-sjúkrahúsinu í Bukavu, en þar sérhæfir hann sig í meðferðum á konum sem uppreisnarsveitir í landinu hafa nauðgað. Hann hefur hlúð að þúsundum fórnarlamba nauðgunar frá tíma seinna Kongóstríðsins, sumum þeirra oftar en einu sinni, og afgreiðir allt að tíu sjúklinga á dag á 18 klst. vinnudegi sínum. Samkvæmt fréttablaðinu The Globe and Mail er Mukwege „líklega helsti sérfræðingur heimsins í meðferð á áverkum eftir nauðganir.“

Denis Mukwege
Denis Mukwege árið 2014.
Fæddur1. mars 1955 (1955-03-01) (69 ára)
MenntunFríháskólinn í Brussel
StörfKvensjúkdómalæknir
TrúHvítasunnukirkjan
VerðlaunSakharov-verðlaunin (2014)
Friðarverðlaun Nóbels (2018)

Árið 2018 hlutu þau Mukwege og Nadia Murad friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu þeirra gegn kynferðisofbeldi í stríði.[1]

Æviágrip

Denis Mukwege er sonur hvítasunnuprests[2] og stundaði grunnám í konunglegum skóla í Bukavu á tíma belgískra nýlenduyfirráða í Kongó. Hann hlaut framhaldsnám í Bwindi-háskólanum í Bukavu og útskrifaðist þaðan með gráðu í lífefnafræði árið 1974. Eftir að hafa unnið í tvö ár í tæknideild Háskólans í Kinsasa hóf hann læknisnám í Háskólanum í Búrúndí.

Mukwege hlaut læknisgráðu árið 1983 og hóf læknisstörf í sjúkrahúsinu í Lemera, sunnan við Bukavu. Árið 1984 hlaut hann námsstyrk frá trúaboðsmiðstöð sænskra hvítasunnumanna[3] til að mennta sig í meðferð kvensjúkdóma í Háskólanum í Angers í Frakklandi. Hann stofnaði þar ásamt heimamönnum samtökin Esther Solidarité France-Kivu til að hjálpa heimalandi sínu.[4]

Þann 24. september 2015 hlaut Mukwege doktorsgráðu í læknavísindum hjá Fríháskólanum í Brussel eftir að hafa varið doktorsritgerð sína um orsakir, greiningar og meðferðir á saurfistlum í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó.[5]

Læknisferill og mannréttindastörf

Mukwege sneri aftur til Kongó árið 1989 þrátt fyrir að eiga vel launað starf í Frakklandi. Hann gerðist yfirlæknir í sjúkrahúsinu í Lamera.

Árið 1996 var sjúkrahús Mukwege lagt í rúst í fyrra Kongóstríðinu. Mukwege slapp með líf sitt en fjöldi sjúklinga og lækna hans voru myrtir í árásinni. Hann flúði til Naíróbí en ákvað síðan að snúa aftur til Kongó. Með hjálp sænsku hjálparsamtakanna PMU (Pingstmissionens Utvecklingssamarbete) stofnaði hann Panzi-sjúkrahúsið í Bukavu. Hann hefur þar þurft að hlúa að tíðum limlestingum á kynfærum kvenna. Mukwege ákvað að gera heimnum kunnugt um kynferðislegar misþyrmingar sem konur mega sæta í austurhluta Kongó og beita sér fyrir auknu hjálparstarfi í þágu fórnarlamba kynferðisofbeldis. Á svæði þar sem hópnauðganir eru algeng stríðsvopn hefur Mukwege sérhæft sig í verndun og læknisaðstoð fyrir fórnarlömbin, auk þess að vinna að auknu aðgengi að sálfræði, lög- og fjárhagsaðstoð fyrir þau.

Mukwege er almennt talinn einn helsti sérfræðingur á heimsvísu í meðferð á fistlum. Hann hefur hlotið tvær háskólaviðurkenningar fyrir rannsóknarstörf sín í þeim efnum.

Þann 25. október árið 2012 var Mukwege sýnt banatilræði í miðbæ Bukavu. Fjórir menn réðust inn á heimili hans, héldu dætrum hans í gíslingu og skutu öryggisvörð hans til bana. Mukwege slapp heilu og höldnu þegar nágrannar hans skárust í leikinn.[6] Eftir tilræðið flutti hann í nokkra mánuði til Belgíu en sneri aftur til Kongó næsta ár til að halda störfum sínum áfram.[4]

Tilvísanir