Fulgencio Batista

Fulgencio Batista y Zaldívar (16. janúar 1901 – 6. ágúst 1973) var kúbverskur herforingi og stjórnmálamaður sem var tvívegis forseti Kúbu. Hann var lýðræðislega kjörinn forseti frá 1940 til 1944 og einræðisherra með stuðningi Bandaríkjanna frá 1952 til 1959, en þá var honum steypt af stóli í kúbversku byltingunni.

Fulgencio Batista
Batista árið 1938.
Forseti Kúbu
Í embætti
10. október 1940 – 10. október 1944
Forsætisráðherra
  • Carlos Saladrigas Zayas
  • Ramón Zaydín
  • Anselmo Alliegro
VaraforsetiGustavo Cuervo Rubio
ForveriFederico Laredo Brú
EftirmaðurRamón Grau
Í embætti
10. mars 1952 – 1. janúar 1959
Forsætisráðherra
Sjá lista
  • Hann sjálfur
  • Andrés Domingo
  • Jorge García Montes
  • Andrés Rivero Agüero
  • Emilio Núñez Portuondo
  • Gonzalo Güell
VaraforsetiRafael Guas Inclán
ForveriCarlos Prío Socarrás
EftirmaðurAnselmo Alliegro
Persónulegar upplýsingar
Fæddur16. janúar 1901
Banes, Kúbu
Látinn6. ágúst 1973 (72 ára)Marbella, Andalúsíu, Spáni
MakiElisa Godínez Gómez (g. 1926; skilin 1946)
Marta Fernandez Miranda (g. 1946; d. 2006)
Börn8
StarfHerforingi, stjórnmálamaður

Batista komst fyrst til valda í herforingjauppreisn árið 1933 þegar bráðabirgðastjórn Carlos Manuel de Céspedes y Quesada var steypt af stóli. Hann útnefndi síðan sjálfan sig yfirhershöfðingja kúbverska hersins með ofurstatign og réð í gegnum fimm manna þjóðstjóraveldi. Hann stýrði Kúbu þannig í gegnum strengjabrúðuforseta sína þar til hann var sjálfur kjörinn forseti árið 1940 eftir popúlíska kosningaherferð.[1][2] Hann innleiddi nýja kúbverska stjórnarskrá árið 1940 sem var talin framfarasöm á sínum tíma[3] og gegndi embætti forseta til ársins 1944. Eftir að kjörtímabili hans lauk settist hann að í Flórída en sneri aftur til Kúbu til að bjóða sig fram á ný árið 1952. Þar sem ljóst var að hann myndi tapa framdi Batista valdarán.[4]

Sem einræðisherra naut Batista fjár-, hernaðar- og stjórnmálaaðstoðar frá ríkisstjórn Bandaríkjanna.[5][6] Batista nam úr gildi stjórnarskrá ársins 1940 og svipti Kúbverja flestum réttindum, þar á meðal rétti til verkfalls. Hann snerist á sveif með ríkustu landeigendunum sem áttu stærstu sykurplantekrurnar og ríkti yfir stöðnuðum efnahag þar sem gjáin milli hinna ríku og fátæku breikkaði stöðugt.[7] Brátt var mestallur sykuriðnaðurinn í höndum Bandaríkjamanna og um 70% alls ræktarlands var í eigu útlendinga.[8] Ríkisstjórn Batista græddi kerfisbundið á því að arðræna Kúbu og gerði bæði samninga við bandarísku mafíuna, sem stjórnaði spilavítum, fíkniefna- og vændissölu í Havana, og við bandarísk stórfyrirtæki sem greiddu honum fúlgur fjár.[7][9] Batista kvað niður óánægju sem braust oft út í stúdentaóeirðum og mótmælum með strangri ritskoðun og leynilögreglu sem beitti ofbeldi, pyntun og aftökum á almannafæri. Talningar á þeim sem voru drepnir með þessum hætti á stjórnartíð Batista eru nokkuð á reiki; hinar lægstu nema nokkrum hundruðum eða þúsundum og hinar hæstu um 20.000.[10][11][12]

Skæruliðar undir stjórn Fidels Castro háðu stríð á landsbyggðinni gegn Batista frá desember 1956 til desember 1958. Batista var loks sigraður af uppreisnarmönnum undir stjórn Che Guevara í orrustu við Santa Clara á nýársdag 1959. Batista flúði eyjuna með persónuleg auðævi sín og kom til dóminíska lýðveldisins, þar sem bandamaður hans, Rafael Trujillo, réð með einræðisvaldi. Batista fékk síðar hæli hjá stjórn António de Oliveira Salazar í Portúgal og bjó þar fyrst á Madeiraeyjum og síðar í Estoril nálægt Lissabon. Batista tók þátt í viðskiptum á Spáni og bjó þar í Guadalmina nærri Marbella þegar hann lést úr hjartaáfalli þann 6. ágúst 1973.[13]

Tilvísanir


Fyrirrennari:
Federico Laredo Brú
Forseti Kúbu
(10. október 194010. október 1944)
Eftirmaður:
Ramón Grau
Fyrirrennari:
Carlos Prío Socarrás
Forseti Kúbu
(10. mars 19521. janúar 1959)
Eftirmaður:
Anselmo Alliegro