Laos
Laos (formlegt nafn: Alþýðulýðveldið Laos, á laosku: Sathalanalat Paxathipatai Paxaxon Lao, bókstaflega „Alþýðulýðveldi Lao fólksins“) er land í Suðausturasíu. Landið hefur hvergi aðgang að hafi. Í norðvestur á landið landamæri að Myanmar (Burma), í norður að Kína, í austur að Víetnam, í suður að Kambódíu og í vestur að Taílandi. Saga landsins er rakin aftur til konungsríkisins Lan Xang eða Miljón fíla landið sem var við lýði frá fjórtándu fram að átjándu öld. Laos var frönsk nýlenda í rúmlega hálfa öld en fékk sjálfstæði 1949. Þá tók við borgarastyrjöld sem stóð fram til 1975 þegar hreyfing kommúnista, Pathet Lao, náði völdum í landinu. Árið 1986 var landið opnað fyrir einkaframtaki og erlendum fjárfestingum. Laos er þó enn talið til þeirra landa sem búa við minnst efnahagslegt og pólitískt frelsi .[1] Þrátt fyrir þetta hefur hagvöxtur verið gríðarmikill síðustu árin og jókst um 7.2% árið 2006,[2] Landbúnaður er aðalatvinnugrein og starfa um 80% landsmanna við sjálfsþurftarbúskap.[3] Íbúar landsins skiptast upp í fjölmörg þjóðarbrot, en um það bil 70% tilheyra Lao-fólkinu.[4]
Alþýðulýðveldið Laos | |
ສາທາລະນະລັດ ປະຊາທິປະໄຕ ປະຊາຊົນລາວ Sathalanalat Paxathipatai Paxaxon Lao | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: ສັນຕິພາບ ເອກະລາດ ປຊາທິປະໄຕ ເອກະພາບ ວັດທະນາຖາວອນ (laoska) Friður, sjálfstæði, lýðræði, eining og hagsæld | |
Þjóðsöngur: Pheng Xat Lao | |
Höfuðborg | Vientiane |
Opinbert tungumál | Laoska |
Stjórnarfar | Flokksræði |
Forseti | Thongloun Sisoulith (ທອງລຸນ ສີສຸລິດ) |
Forsætisráðherra | Phankham Viphavanh (ພັນຄຳ ວິພາວັນ) |
Sjálfstæði | |
• frá Frakklandi | 19. júlí 1949 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) | 82. sæti 237.955 km² 2 |
Mannfjöldi • Samtals (2019) • Þéttleiki byggðar | 105. sæti 7.123.205 26,7/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2019 |
• Samtals | 58,329 millj. dala (107. sæti) |
• Á mann | 8.458 dalir (119. sæti) |
VÞL (2019) | 0.613 (137. sæti) |
Gjaldmiðill | Kip (LAK) |
Tímabelti | UTC+7 |
Þjóðarlén | .la |
Landsnúmer | +856 |
Orðsifjar
Nafn landsins á laosku er Lao, en þegar Frakkar gerðu landið að nýlendu sinni bættu þeir við fleirtölu s-i við nafnið, enda var landið þá uppskipt í fleiri konungsveldi.
Sögubrot
Laos rekur sögu sína aftur til konungsríkisins Lan Xang sem varð til á 14. öld. Á 18. öld óx síamska konungsveldinu mjög fiskur um hrygg og lagði það undir sig stærsta hluta þeirra svæða sem höfðu verið undir stjórn Lan Xang (þó þau væru þá uppskipt í fleiri minni konungsveldi). Frakkar, sem voru þá að leggja stóran hluta Suðaustur-Asíu undir sig, snerust gegn auknum áhrifum Síam. Tókst þeim að hrekja síamska herinn vestur fyrir Mekong-fljótið og sköpuðu Laos sem svæði innan Frönsku Indókína 1893. En stærsti hluti þess sem hafði verið Laos og þar sem um 80% laómælandi bjuggu varð hluti af Taílandi og er enn. Frakkar breyttu nafni höfuðborgarinnar úr Vieng Chang í Vientiane. Japan hernam landið í nokkur ár í seinni heimsstyrjöldinni og lýst var yfir sjálfstæði landsins 1945 en Frökkum tókst fljótlega að ná völdum aftur. Laos varð formlega sjálfstætt 1949 en það var ekki fyrr en 1954 sem það varð í raun sjálfstætt sem þingbundið konungsríki og var Sisavang Vong vígður konungur.
Árið 1951 var kommúnistahreyfingin Pathet Lao stofnuð undir forystu Souphanouvong prins, sem kallaður var rauði prinsinn. Pathet Lao tók völdin 1954 í tveimur héruðum í norðurhluta landsins. Næstu tveir áratugirnir einkenndust af borgarastyrjöld og valdaránum. Þrátt fyrir að Laos væri aldrei formlega hluti af Víetnamstríðinu varð það illilega fyrir barðinu á því. Milli 1971 og 1973 kastaði Bandaríkjaher fleiri sprengjum á Laos en hafði verið kastað í allri seinni heimsstyrjöldinni á árunum 1939-1945. Samanlagt köstuðu þeir yfir 2 miljónum tonna af sprengjum á landið og eru þær enn að finnast.[5][6]
Eftir sigur kommúnista í Víetnam hóf Pathet Lao mikla sókn og tókst 1975 að ná völdum í öllu landinu. Áætlað að nærri 300 000 flóttamenn hafi flúið til Taílands eftir valdtöku kommúnista.
Eftir valdatökuna fékk landið formlega nafnið Alþýðulýðveldið Laos og gerðir voru samningar sem heimiluðu Víetnam að hafa her í landinu og hafa yfirumsjón með stjórn þess. Laos varð mjög einangrað og átti nánast öll sín viðskipti við Víetnam. Harðlínukommúnismi var þó aldrei allsráðandi, til dæmis voru tilraunir til að koma á samyrkjubúum fljótlega lagðar af. Viðhorf kommúnista í Laos urðu fljótlega mjög frábrugðin annarra kommúnista. Búddismi var því sem næst gerður að ríkistrúarbrögðum og mikil áhersla lögð á sýna fram á að í raun væri búddisminn sósíalískur.
Efnahags- og samfélagslíf í Laos gjörbreyttist eftir að áhrif Víetnam fóru að minnka upp úr miðjum níunda áratugnum og sérstaklega eftir að landið gekk í ASEAN árið 1997
Landafræði
Laos er 235 000 ferkílómetrar að flatarmáli, heldur stærra en Bretland. Að stærstum hluta er það skógi vaxið fjallaland, hæsta fjallið er Phou Bia 2817 metra hátt, um 70% af landinu er fjöll eða hásléttur. Fljótið Mekong fylgir að mestu vesturlandamærunum að Taílandi en Annamít fjallgarðurinn (sem nefndur er Phou Luag í Laos) myndar landamærin við Víetnam í austri.
Í landinu er hitabeltisloftslag og monsúnrigningar. Regntíminn stendur yfir frá maí fram til nóvember og þurrkatíð frá desember fram til apríl. Höfuðborgin og stærsta borgin í Laos er Vientiane, aðrar stærri borgir eru Luang Prabang, Savannakhet og Pakse.
Skógarnir í Laos eru einna mestir þeirra sem eftir eru í allri Suðaustur-Asíu og þekja um 40% af landinu. Þess vegna er lífríki landsins einstaklega fjölbreytt. Þar er meðal annars hægt að finna stórann hluta af þeim Asíufílum (Elephas maximus) sem enn eru til villtir, einnig er þar að finna indókínverska tígrisdýrið (Panthera tigris corbetti) og hinn risavaxna gáruxa (Bos gaurus).[7] Ríkisstjórnin ákvað 1993 að 21% landsins eigi að vernda sem sérstaklega mikilvæg fyrir fjölbreytni lífríkisins, ætlunin er að þessi svæði verði gerð að þjóðgörðum síðar.[8]
Íbúar
Í engu landi í Suðaustur Asíu búa jafn margar þjóðir og þjóðflokkar og í Laos. Allt eftir því hvernig reiknað er eru þær taldar vera 48 eða 65. Ýmis háttur hefur verið hafður á við að flokka þessi þjóðarbrot saman. Á áttunda áratugnum flokkuðu yfirvöld þau í þrjá hópa, Lao Loum (láglendisbúa), Lao Theung (hæðabúa) og Lao Soung (fjallabúa). Þessi greining var byggð á pólitískum forsendum og hefur nú verið lögð af þó að margir noti hana enn og oft megi sjá hana í bókum um Laos. Nú er flokkað eftir hinum þremur stóru tungumálafjölskyldum sem flest tungumálin tileyra - ástró-taí, ástró-asísk og sínó-tíbetönsk mál. Um helmingur íbúanna hafa laosku að móðurmáli, um 15% tala önnur mál af Taí-Lao málaætt, en allir hinir hóparnir eru mun minni. Af þeim má nefna Khmu, Hmong, Lu, Phuan, So, Katang, Akha, Tai Dam og Yao. Þar að auki er um eitt prósent íbúa af kínverskum eða víetnömskum ættum.[9]
Theravada-búddismi er höfuðtrú og hefur nánast stöðu sem ríkistrú. Þar að auki er andatrú og forfeðradýrkun algeng, sérstaklega hjá minnihlutahópunum. Fáeinir kristnir eru í borgunum og múslimar við landamærin að Burma. Trúboð er litið illu auga af yfirvöldum og er háð ströngu eftirliti.
Efnahagslíf
Kommúnistastjórnin í Laos tók upp nýja efnahagsstefnu 1986 með því að minnka miðstýringu og leyfa einkaframtak í efnahagsmálum. Við það tók efnahagslífið mikinn kipp og hefur árlegur hagvöxtur á árunum 1988 til 2006 verið að meðaltali 6%. Sérstakega er þetta áberandi í stærri bæjunum, Vientiane, Luang Prabang og Savannakhet. Efnahagslífið er nánast algjörlega undirlagt hinum ríku og voldugu nágrönnum, Taílandi, Víetnam er sérstaklega Kína.
Samgöngur eru afar erfiðar. Vegakerfið er í mjög slæmu ástandi, það er mestmegnis moldarvegir sem verða algjörlega ófærir á regntímanum. Lestarkerfi er ekkert og flugsamgöngur takmarkaðar. Mikið af flutningum fer fram á fljótunum, sérstaklega á Mekongfljótinu.
Sjálfsþurftarbúskapur stendur enn undir um helmingi af vergum þjóðartekjum og um 80% af íbúunum hafa afkomu sína af honum.[10] Hrísgrjónaræktun er aðallandbúnaðargreinin og er um 80% ræktaðs land notað undir hana [11] Hvergi eru til eins mörg afbrigði af hrísgrjónum eins og í Laos og yfirvöld hafa unnið með alþjóðlegum stofnunum frá 1995 við að safna fræjum af þeim þúsundum tegunda sem ræktaðar eru í Laos.[12]
Fyrir utan landbúnað er námugröftur, aðallega kopar og gull, en einnig rafmagnsútflutningur, mikilvægur þáttur í erlendum viðskiptum landsins. Ferðamannaþjónusta er í hröðum vexti og eru þar einkum ferðamenn frá Kína og Taílandi á ferð.
Vöntun á alls konar menntafólki stendur mjög í vegi allra framfara. Samkvæmt rannsókn sem gerð var á vegum Alþjóðabankans 2005 búa 37% allra mennaðra Laosbúa erlendis og setur það Laos í fimmta neðsta sæti í heiminum hvað þetta varðar.[13]
Menntun
Menntunarkerfið í Laos er mjög skammt komið. Þegar landið fékk sjálfstæði frá Frökkum var einungis örlítill hópur tengdur aðalsmönnum sem hafði einhverja formlega menntun ef undantekin er klausturmenntun munka og nunna. Það var ekki fyrr en um 1960 sem farið var að byggja upp menntakerfi að nútímasniði. Eftir valdatöku Pathet Lao 1975 flúðu flestir þeirra sem höfðu einhverja æðri menntun land, þar á meðal margir betur menntaðir kennarar. Í núverandi skólakerfi er fimm ára grunnskóli skylda og eru nánast 70% hvers árgangs sem ljúka honum. Þrátt fyrir það er áætlað að um helmingur Laosbúa séu enn ólæsir. Eftir grunnskóla geta nemendur haldið áfram í þriggja ára viðbótarnám og svo þaðan í þriggja ára menntaskólanám. Það eru hins vegar innan við 10% sem ná þangað. Í landinu er einungis einn háskóli.
Fjölmiðlar
Allir fjölmiðlar í Laos eru í eigu ríkisins og undir strangri ritskoðun. Einungis tvö dagblöð eru í landinu, ef frá eru taldar útgáfur á frönsku og ensku, og fáein tímarit. Þau koma öll út í mjög fáum eintökum og flestir Laosbúar sjá aldrei dagblað. Ríkið rekur einnig útvarps og sjónvarpsstöð. Engar bækur má gefa út án þess að þær hafi farið í gegnum ritskoðunarkerfið. Hins vegar eru engar hömlur á innflutningi á tímaritum og bókum. Internetið er nánast óþekkt og einungis á fáeinum stöðum, sérstaklega í Vientiane, er netið aðgengilegt og þá helst fyrir ferðamenn, .
Heimildir
Tenglar
- United Nations Operations in Lao P.D.R -RB- Geymt 3 ágúst 2020 í Wayback Machine
- UNDP Lao Official Website -RB-
- The National Assembly of Lao P.D.R.
- Ministry of Foreign Affairs of Lao P.D.R. Geymt 11 nóvember 2019 í Wayback Machine
- Ministry of Trade of Lao P.D.R.[óvirkur tengill]
- Laos tourism Geymt 28 nóvember 2020 í Wayback Machine
- Ministry of Commerce of Lao P.D.R.[óvirkur tengill]
- National Statistics Centre of Lao P.D.R. Geymt 10 desember 2010 í Wayback Machine
- CIA - The World Factbook: Laos Geymt 29 desember 2010 í Wayback Machine
- WWF in Laos
- Vientiane Times: the official newspaper
- Lao Cuisine Geymt 21 september 2020 í Wayback Machine Lao Food and drinks
- Lao Music Geymt 27 júlí 2020 í Wayback Machine Latest modern and traditional Lao Music
- Lao News Geymt 9 ágúst 2018 í Wayback Machine Daily Lao News
- Lao Voices Geymt 18 maí 2021 í Wayback Machine Blogs about Laos
- KPL Daily News Geymt 11 janúar 2007 í Wayback Machine Lao News Agency
- Laos Cultural Profile (Ministry of Information and Culture/Visiting Arts)